McDonald‘s hefur ákveðið að yfirgefa Kasakstan þar sem rekstraraðila veitingastaðanna í landinu hefur ekki tekist að skipta út rússnesku kjöti eftir að hamborgarakeðjan bannaði sérleyfishafanum að eiga í viðskiptum við rússneska birgja vegna stríðsins í Úkraínu. Bloomberg greinir frá.
„Skyndibitastaðir reknir af TOO Food Solutions KZ munu hætta að starfa undir McDonald‘s vörumerkinu í Kasakstan vegna framboðstakmarkana,“ segir í tilkynningu á vef hamborgarakeðjunnar í Kasakstan.
McDonald‘s opnaði í Kasakstan árið 2016 og voru 24 staðir reknir undir merkjum keðjunnar og störfuðu þar um 2 þúsund manns. Um 20 milljónir búa í Kasakstan, sem tengist sunnanverðum landamærum Rússlands.
Þó Kasakstan er ekki hluti af viðskiptaþvingunum vesturlanda gegn Rússlandi, þá ákvað McDonald‘s að banna sérleyfishafa veitingastaðanna að eiga í viðskiptum við rússneska birgja.
Samkvæmt heimildum Bloomberg tókst rekstraraðilanum TOO ekki að ná samkomulagi við innlenda eða evrópska kjötbirgja þar sem hærra verð og flutningskostnaður hefði leitt til taps hjá fyrirtækinu.