Um verulegan samdrátt í fjölda keyptra bíla milli ára verður að ræða hjá Bílaleigu Akureyrar að sögn Steingríms Birgissonar forstjóra. Endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir en útlit sé fyrir um það bil 40% samdrátt. Fyrir því séu margar ástæður.

„Hátt vaxtastig, minni eftirspurn, og offramboð af bílum í fyrrasumar, en líka sú staðreynd að við höfum endurnýjað flotann mikið undanfarin 2 ár. Þetta eru svona stærstu ástæðurnar. Sumarið fer rólega af stað má segja, þó enn sé nokkuð langt í það,“ segir hann og vísar til þess að bókanir fyrir komandi sumar séu færri en á sama tíma í fyrra, þótt munurinn séu engin ósköp.

„Þetta eru svosem engar hamfarir, og veturinn og vorið líta mjög vel út, en sumarið stefnir í að verða eitthvað rólegra en fyrrasumar, og seinni hluti þess var þó heldur lakari en sami tími árið þar áður.“

Hópferðirnar settu strik í reikninginn

Steingrímur segir helstu ástæðu offramboðs bílaleigubíla í fyrra hafa verið óvænt sterka endurkomu hópferða. „Það var bara minni eftirspurn eftir bílum, sem öðru fremur stafaði af því að fólk fékk ekki gistingu. Hópferðirnar eru snöggar að fylla gistinguna og við höfðum vanmetið hvað þær yrðu margar. Bílaleigurnar yfirskutu því eiginlega möguleikana aðeins í þeim efnum.“

Leiga bílaleigubíla á hvert gistirými hafi dregist nokkuð saman milli ára í fyrra sökum þess að nánast engar hópferðir hafi verið skipulagðar faraldursárin 2020 - 2022 en þær svo komið aftur inn í fyrra, en eins og gefur að skilja séu ekki leigðir ýkja margir bílaleigubílar á mann – eða yfir höfuð – í slíkum ferðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag.