Bandaríska fjarskiptafélagið Liberty Global hefur keypt 4,9% hlut í breska fjarskiptafélaginu Vodafone að andvirði 1,2 milljarðar punda, eða sem nemur tæplega 200 milljörðum króna. Hlutabréf Vodafone hafa hækkað um 3% í fyrstu viðskiptum í dag.
Liberty Global segist ekki ætla að leggja fram yfirtökutilboð í Vodafone. „Hlutabréfin eru ódýr - þetta er tækifærissinnuð fjárfesting byggð á fjárhagslegum viðmiðum,“ hefur Financial Times eftir Mike Fries, forstjóra Liberty Global.
Hann bætti við að Vodafone hefði áhugaverð tækifæri til að skapa verðmæti fyrir hluthafa, þar meðal með samruna við CK Hutchison, móðurfélag Three UK. Viðræður milli Vodafone og CK Hutchison hafa staðið yfir í nokkra mánuði.
Liberty Global á meirihluta í Virgin Media O2, einum helsta keppinauti Vodafone í Bretlandi. Liberty Global hefur alls fjárfest í 75 fyrirtækjum á sviði fjarskipta, fjölmiðla og innviða.