Embla Medical, móðurfélag Össurar, hefur undirritað samning um kaup á 51% hlut í þýska stoðtækjafyrirtækinu Streifeneder ortho.production GmbH, samkvæmt kauphallartilkynningu. Kaupin eru háð samþykki yfirvalda í Þýskalandi.
Þegar kaupin ganga í gegn hyggst stjórn Emblu Medical nýta heimild til að gefa út 2.805.135 nýja hluti og þar með hækka heildarhlutafé um 0,7%. Áskriftarverð hvers hlutar er 33,26 danskar krónur og nemur því heildarvirði hlutafjárhækkunarinnar 93 milljónum danskra króna eða tæplega 1,8 milljörðum íslenskra króna.
Hluthafar Streifeneder ortho.production munu skrá sig fyrir öllum útgefnum hlutum.
Streifeneder er alþjóðlegur framleiðandi og dreifiaðili stoð- og stuðningstækja með um 100 starfsmenn. Félagið er hluti af Streifeneder Group, sem rekur einnig fjölda stoðtækjaverkstæða í Þýskalandi.
Sölutekjur Streifeneder á árinu 2024 námu um 25 milljónum evra eða um 3,7 milljörðum íslenskra króna. Um 70% af tekjum félagsins koma frá stoðtækjum, íhlutum fyrir stoðtæki og stuðningsvörur.
Megnið af sölu fyrirtækisins fer fram í Þýskalandi, en einnig er umtalsverð dreifing til annarra Evrópulanda, auk Ameríku og Asíu.
„Með kaupunum á Streifeneder myndast mikil tækifæri til að ná til fleiri sjúklinga með breiðu vöruúrvali og um leið styrkja stöðu félagsins á þýska markaðnum, sem er næst stærsta markaðssvæði Emblu Medical,“ segir í tilkynningu Emblu.
Samstæðan áætlar að Streifeneder vaxi í takt við alþjóðlega stoðtækjamarkaðinn á bilinu 5-7% til skemmri tíma litið, auk þess sem gert er ráð fyrir samlegðaráhrifum í gegnum sameiginlegar dreifileiðir.
Þegar kaupin hafa gengið í gegn er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á fjárhagsáætlun Emblu Medical fyrir árið 2025.
„Kaupin á Streifeneder falla vel að vaxstarstefnu okkar og gera okkur kleift að ná til fleiri sjúklinga með breiðara vöruúrvali og heildarlausnum á stoðtækjamarkaði. Auk þess styrkjum við stöðu okkar á lykilmörkuðum sem og nýjum markaðssvæðum. Sameiginlegt vöruframboð undir merkjum Össurar og Streifeneder mun nýtast bæði viðskiptavinum og sjúklingum um allan heim,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu Medical.
„Með því að sameinast Emblu Medical höfum við fundið hinn fullkomna samstarfsaðila til að halda arfleið okkará lofti. Sameining félaganna tryggir sterka stöðu á stoðtækjamarkaði með öflugu vöruframboði. Samspil vörumerkjana Össur og Streifeneder styrkir stöðu Emblu Medical til framtíðar og gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu,“ er haft eftir Friedrich Streifeneder, framkvæmdastjóra Streifeneder ortho.production.