Hópur fjárfesta, þar á meðal flugfélagið Mýflug, hefur keypt 77,1% hlut í flugfélaginu Erni. Þetta staðfesta þeir Hörður Guðmundsson, eigandi Ernis og Leifur Hallgrímsson, stærsti hluthafi Mýflugs, við Fréttablaðið. Hörður mun áfram sjá um rekstur Ernis.
„Við létum slag standa núna og okkur lýst bara nokkuð vel á þetta. Þetta eru gleðifréttir fyrir okkur öll af því að það er annað hvort að skera niður fyrirtækin eða aðeins að reyna stækka þau. Þetta er búin að vera kyrrstaða nokkuð lengi, þannig það er gott að fá hreyfingu á bæði fyrirtækið og verkefnin. Okkur lýst bara vel á að það sé hægt að ná aukinni hagkvæmni með samvinnu fleiri aðila,“ hefur Fréttablaðið eftir Herði.
„Ég hef verið að reka þetta sjálfur í tæplega 53 ár og fer að undirbúa það að opna fyrirtækið fyrir almennum hluthöfum. Það er eiginlega ástæðan bak við söluna.“
Hörður segir að Ernir horfi til þess að ná hagkvæmni með stærri og fjölbreyttari rekstri. Hann gerir ekki ráð fyrir stórkostlegum breytingum en tekur þó fram að millilandaflug sé möguleiki.
Haft er eftir Leifi Hallgrímssyni að með kaupunum sé Mýflug að styrkja stöðu sína á innanlandsmarkaðnum en félagið hefur einkum verið í sjúkraflugi. Hann segir að Mýflug hafi lengi talað fyrir sameiningu með einhverjum hætti við Erni og Norlandair. Um sé að ræða þrjú lítil flugfélög sem gætu verið öflugri saman.