Félag í eigu fjárfestingarfélagsins Novo Holdings, sem á ráðandi hlut í danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk, hefur náð bindandi samkomulagi um kaup á Benchmark Genetics, sem á m.a. Benchmark Genetics Iceland sem hét áður Stofnfiskur.
Heildarvirði Benchmark Genetics í viðskiptunum er allt að 260 milljónir punda, eða sem nemur um 45 milljörðum króna, en þar af eru um 30 milljónir punda háðar frammistöðutengdum mælikvörðum.
Í tilkynningu breska móðurfélagsins Benchmark Holdings til kauphallarinnar í London kemur fram að félagið hyggist nýta söluandvirðið í arðgreiðslur til hluthafa, draga úr skuldsetningu félagsins, og styrkja þar með efnahagsreikning áframhaldandi starfsemi félagsins.
Hlutabréfaverð Benchmark Holdings hefur hækkað um meira en 9% það sem af er degi.
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um Benchmark Genetics Iceland í apríl síðastliðnum.