Eignarhaldsfélagið Hótel Selfoss fasteignir hefur keypt Hótel Eyvindará á Egilsstöðum á 334,5 milljónir króna.
150 milljónir voru greiddar með reiðufé en restin var yfirtaka á lánum. Seljandi hótelsins er eignarhaldsfélagið Staki hjalli, í eigu hjónanna Sigurbjargar Ingu Flosadóttur og Ófeigs Pálssonar sem hafa rekið hótelið óslitið frá árinu 2007.
Fasteignin er í heildina 1.077 fermetrar, þar af ríflega 700 fermetra gistiálma á tveimur hæðum með 16 herbergjum, 210 fermetra raðhúsalengja með tíu herbergjum og sjö smáhýsi á bilinu 15-33 fermetrar að stærð.
Hótel Selfoss fasteignir, í eigu Adolfs Guðmundssonar og Gunnlaugs, Ómars og Ragnars Jóhanns Bogasona, seldi Hótel Selfoss í árslok 2022 á 2,7 milljarða króna til JAE eignarhaldsfélags sem er í 90% eigu Ingibjargar Pálmadóttur fjárfestis og Aðalsteins Jónssonar Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra vinnustofu Kjarvals.
Nam söluhagnaðurinn 735,9 milljónum króna.
Hótelið sjálft er ríflega 8.300 fermetrar en með í kaupunum var einnig 500 fermetra bíóhús sambyggt hótelinu sem og um 300 fermetra heilsulind.
Hótel Selfoss skrifaði undir samning í byrjun árs við Marriott International um að hótelið verði Four Points by Sheraton hótel sem er eitt af yfir 30 vörumerkjum Marriott Bonvoy. Samkomulagið fylgdi í kjölfar umfangsmikilla endurbóta á hótelinu, sem verður þriðja Marriott-hótelið á Íslandi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.