Laug ehf., félag í eigu Kristjáns Magnasonar og Jóhanns Guðlaugs Jóhannssonar, keypti í lok síðasta árs Háteigsveg 1 fyrir 800 milljónir króna. Seljandi er K Apartments ehf., sem er í eigu Jökuls Tómassonar, sem eignaðist húsið árið 2018.

Í húsinu hefur verið hótelrekstur undanfarin ár og hyggjast nýir eigendur reka þar hótel undir nafninu One - A Townhouse Hotel og ráðast í endurbætur. Fasteignin, sem er 1.042 fermetrar, var afhent í byrjun ársins.

Fasteignin að Háteigsvegi 1, sem stendur á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs, er oft kölluð Rauða húsið og var byggð árið 1952. Apótek Austurbæjar var stofnað þar árið 1953 og var þar fram til ársins 2010 þegar fyrirtækið flutti framleiðslu sína í stærra húsnæði í Síðumúla.

Þá var víngerðarverslunin Áman til húsa að Háteigsvegi 1 um árabil en flutti starfsemi sína að Tangarhöfða 2 árið 2016.

Rauða húsið á Háteigsvegi 1 er þekktast fyrir að hafa hýst Apótek Austurbæjar og er húsið enn merkt apótekinu.
© Sigurður Gunnarsson (Sigurður Gunnarsson)

Laug ehf. er fasteignafélag sem einblínir einkum á útleigu fasteigna í miðbæ Reykjavíkur. Félagið á m.a. fasteignina að Laugavegi 74 þar sem Hótel Vera er rekið. Fasteignir Laugar voru bókfærðar á 1.341 milljón króna í árslok 2022 en ársreikningur félagsins byggir á kostnaðarverðsreikningsskilum.

Kristján og Jóhann Guðlaugur, sem er meðstofnandi og einn eiganda Aztiq, eru einnig aðaleigendur Leiguíbúða ehf., fasteignafélags sem sérhæfir sig í íbúðabyggingu í miðbænum. Félagið hefur undanfarið unnið að byggingu íbúðakjarna að Laugavegi 33, 33b, 35, 37 og Vatnsstíg 4.