Eignarhaldsfélagið Laufás hótel hefur keypt Hótel Hvolsvöll á 690 milljónir króna. Seljandi hótelsins er eignarhaldsfélagið Hlíðarvegur 5-11, í eigu Sigurðar Inga Ingimarssonar fjárfestis.
Hótel Hvolsvöllur, sem staðsett er að Hlíðarvegi 7-11, var opnað árið 1984 og hefur síðan verið stækkað tvisvar, fyrst árið 1998 og árið 2007.
Með stækkun hótelsins árið 2007 bættust 26 herbergi við og í dag samanstendur hótelið af 66 herbergjum talsins. Þar af eru 22 þriggja manna, 32 tveggja manna og 8 eins manns herbergi. Þá eru einnig 3 fjögurra manna fjölskylduherbergi.
Félagið Laufás hótel, sem áður bar nafnið Hótel Selfoss fasteignir, er í eigu Ragnars Jóhanns og Ómars Bogasona.
Félagið keypti á dögunum fjölskylduhótelið Hótel Eyvindará á Egilsstöðum á 334,5 milljónir króna.
Það seldi Hótel Selfoss í árslok 2022 á 2,7 milljarða króna til JAE eignarhaldsfélags sem er í 90% eigu Ingibjargar Pálmadóttur fjárfestis og Aðalsteins Jónssonar Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra vinnustofu Kjarvals. Nam söluhagnaðurinn 735,9 milljónum króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.