Félagið Arctic K2 ehf. gekk í október síðastliðnum frá kaupum á fasteign að Köllunarklettsvegi 2, sem staðsett er við Sundahöfn í Reykjavík, á 987,5 milljónir króna.
Arctic K2 ehf. er dótturfélag ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures og var stofnað í september á síðasta ári. Félagið kaupir fasteignina af félaginu Landbergi ehf., sem er í eigu fjárfestahjónanna Hjörleifs Þórs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg. Hjónin eiga meðal annars ríflega helmingshlut í bílaumboðinu Öskju auk þess að vera meðal stærstu hluthafa Öryggismiðstöðvarinnar.
Fjögur fyrirtæki eru skráð til húsa að Köllunarklettsvegi 2. Iceland Seafood International, sem skráð er á Aðalamarkað Kauphallarinnar, er stærst þeirra. Auk Iceland Seafood eru ferðaskrifstofan Mountaineers of Iceland, vínbirginn Mekka Wines & Spirits og lögmannsstofan Sævar Þór & partners með skrifstofur að Köllunarklettsvegi 2.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.