Samkomulag hefur náðst á milli Stefnis og hluthafa Internets á Íslandi hf. (ISNIC) um kaup SÍA IV slhf., framtakssjóðs í rekstri Stefnis og að meirihluta í eigu lífeyrissjóða, á meirihluta hlutafjár ISNIC. Endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
„Við hlökkum til að styðja við áframhaldandi vöxt félagsins og .is lénsins með því góða starfsfólki sem starfar hjá félaginu,“ segir Ólöf Pétursdóttir, sjóðstjóri SÍA IV, í tilkynningu.
ISNIC er skráningarstofa landshöfuðlénsins .is og sinnir rekstri þess auk þess að reka miðlæga internettengipunktinn RIX. ISNIC hefur skráð .is lén frá árinu 1988 og eru skráð .is lén í dag yfir 94 þúsund talsins, en rétthafar lénanna eru bæði innlendir og erlendir aðilar.
Internet á Íslandi hf. hagnaðist um 151 milljón króna í fyrra, samanborið við 122 milljóna hagnað árið 2022. Tekjur félagsins námu 444 milljónum í fyrra. Eignir ISNIC námu 405 milljónum króna og eigið fé var um 108 milljónir króna í árslok 2023.
Hluthafar ISNIC voru 21 í árslok 2023. Jens Pétur Jensen er stærsti hluthafi félagsins með 30,3% hlut. Þar á eftir kemur Íslandspóstur hf. með 19,2% hlut, Magnús Soffaníasson með 17,2% hlut og Bárður Hreinn Tryggvason með 16,7% hlut.
SÍA IV er fjórði sjóðurinn í röð SÍA framtakssjóða sem hófu starfsemi árið 2011 og hafa frá þeim tíma leitt fjárfestingar í íslensku atvinnulífi fyrir yfir 50 milljarða króna.