Súlur Reykja­vík ehf. hefur fest kaup á Urðar­hvarfi 16 í Kópavogi fyrir tæp­lega 3,5 milljarða króna.

Seljandi er BS eignir en sam­kvæmt kaup­samningi var gengið frá kaupunum um miðjan október­mánuð.

Hjónin Snorri Hjalta­son og Bryn­hildur Sigur­steins­dóttir eiga BS eignir til jafns en sonur þeirra Ólafur Páll Snorra­son, fram­kvæmda­stjóri BS eigna, stýrði byggingu hússins.

Húsið er á níu hæðum og rúm­lega 10.400 brúttó­fer­metrar.

Súlur Reykja­vík er í endan­legri eigu fjögurra ein­stak­linga.

Kristján M. Grétars­son, Magnús Ár­mann, Lilja Þórey Guð­munds­dóttir og Sturla Björn John­sen fara öll með 25% hlut hvor í félaginu.

Sturla, Teitur og Kristján keyptu Urðarhvarf 14 árið 2021 í gegnum félagið KTS ehf. á 1,75 milljarðar en KTS félagið heldur einnig utan um eignarhlut þeirra í Súlum Reykjavík.

Kaupendur reka heilsugæslustöð Heilsuverndar í Urðarhvarfi en Lilja Þórey og Sturla eru eig­endur Heilsu­verndar ehf.

Lilja er skráð fyrir 60% hlut í Heilsu­vernd í gegnum Sternum ehf. en eigin­maður hennar, Teitur Guð­munds­son, stofnaði Heilsu­vernd. Sturla fer með 40% hlut í Heilsuvernd.

Árið 2021 náði Heilsu­vernd sam­komu­lagi við Sjúkra­tryggingar Ís­lands um rekstur tíma­bundinna hjúkrunarrýma í Urðar­hvarfi 8. Samningstíminn var fjögur ár með mögu­leika á fram­lengingu.

Samningurinn gekk þó ekki eftir þar sem eig­andi Urðar­hvarfs 8 „dró húsnæðið til baka“vegna tíma­lengdar leigu­samningsins og ákvað að fá aðra leigj­endur að húsnæðinu.

Hjúkrunarrýmunum var ætlað að létta á álagi á Land­spítalanum.