International Consolidated Airlines, sem á meðal annars British Airways og Iberia, hefur pantað 53 nýjar flugvélar frá bæði Boeing og Airbus. Fjárfestingin er talin vera mjög stór í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir innan fluggeirans og innan alþjóðlegra markaða.

Á vef WSJ segir að samstæðan hafi pantað 32 Boeing 787-10 og 21 Airbus A330-900neo sem verða meðal annars sendar til Iberia og Aer Lingus.

Flugvélarnar verða afhentar milli 2028 og 2033 og eru pantanir enn háðar samþykki hluthafa sem munu funda í næsta mánuði.

Bandarísk flugfélög eins og American Airlines og Delta hafa nýlega dregið til baka spár sínar vegna minnkandi eftirspurnar á Norður-Ameríkumarkaði. IAG hefur hins vegar lýst yfir trausti sínu á markaðnum en tekjur þess í Bandaríkjunum hafa aukist um 13%.