Fisk Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, keypti á föstudaginn 22 milljónir hluta í Iceland Seafood International (ISI) á genginu 7,0 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Kaupverðið nam því 154 milljónum króna.
Fisk Seafood átti fyrir kaupin rúmar 284 milljónir hluta í ISI, líkt og Jakob Valgeir ehf. Við kaupin tók útgerðarfélagið fram úr Sjávarsýn, fjárfestingarfélagi Bjarna Ármannssonar, sem stærsti hluthafi Iceland Seafood og fer nú með 306 milljónir hluta, eða 11,3% hlut, í félaginu sem er 2,2 milljarðar króna að markaðsvirði.

Halldór Leifsson, markaðs- og sölustjóri hjá Fisk Seafood, hefur setið í stjórn ISI frá því í mars 2020. Þá er Fisk Seafood stór birgir hjá Iceland Seafood.
Iceland Seafood birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar á föstudaginn. Fyrirtækið tilkynnti að það hefði sett breska dótturfélagið Iceland Seafood UK í söluferli og færði niður viðskiptavild að fjárhæð 1,6 milljónir evra, eða um 236 milljónir króna á gengi dagsins, að fullu.
Hlutabréfaverð Iceland Seafood lækkaði um 7,3% á föstudaginn og stóð í 6,95 krónum við lokun Kauphallarinnar en dagslokagengi félagsins hafði aldrei farið undir 7,0 krónur frá skráningu þess á aðalmarkaðinn í október 2019. Gengi ISI hefur hækkað um 1,4% í dag og stendur í 7,05 krónum.