Kauphöll Íslands hf., sem starfrækir kauphöll Nasdaq á Íslandi, hagnaðist um 378 milljónir króna árið 2024 samanborið við 322 milljónir árið áður.
Stjórn félagsins lagði til að greiddur verði arður til hluthafa að fjárhæð 380 milljónir króna í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.
Tekjur Kauphallarinnar námu 913 milljónum krónaá síðasta ári sem er 5,7%% aukning frá fyrra ári. Þar af voru tekjur af viðskiptum 348 milljónir og tekjur af markaðsgögnum og útgefendum 486 milljónir króna.
Rekstrargjöld drógust lítillega saman og námu 567 milljónum króna. Ársverk voru 14, líkt og á fyrra ári, og laun og tengd gjöld námu 257 milljónum króna.
Tvær nýskráningar í fyrra
Í skýrslu stjórnar er bent á að í fyrra hafi tvö ný félög, Oculis og Kaldvík, verið skráð á markað ásamt því að flugfélagið Play var flutt frá First North-markaðnum yfir á aðalmarkaðinn. Engar afskráningar voru árið 2024.
Skráð félög voru 33 í lok árs, þar af fimm á First North Iceland. Heildarmarkaðsvirði þeirra var 3.249 milljarðar króna í lok árs 2024, sem samsvarar 20% aukningu frá fyrra ári. Á sama tíma jókst heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa um 2% og nam 3.334 milljörðum króna, þar af 1.069 milljarðar útgefnir af íslenska ríkinu.
Fram kemur að hlutabréfaviðskipti hafi aukist um 61% frá fyrra ári og skuldabréfaviðskipti drógust saman um 6%.
Eignir Kauphallar Íslands hf. námu 1.225 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 680 milljónir króna.
Systurfyrirtækið Nasdaq CSD SE, sem hét áður Nasdaq verðbréfamiðstöð, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2024.