Tilkynning Festi um starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra félagsins, fyrir viku síðan hefur vakið athygli á síðustu dögum, ekki síst þar sem fullyrðing um að Eggert Þór hafi sagt starfi sínu lausu virðist ekki halda vatni heldur hafi honum verið sagt upp. Margir hafa furðað sig á að skráð félag standi að upplýsingagjöf til hluthafa og fjárfesta með þessum hætti.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að málið sé til skoðunar hjá Kauphöllinni. Hann vill þó ekki tjá sig nánar um mál sem eru til skoðunar.
„Við erum með þetta í skoðun. Það er í raun og veru eins og með mörg önnur mál er varða upplýsingaskyldu skráðra félaga á markaði,“ segir Magnús.
Sjá einnig: Sjö ár hæfilegur tími í forstjórastóli?
Líkt og fram kemur í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag þá herma heimildir blaðsins að Eggert Þór hafi fengið þá skýringu frá stjórn Festar að tími væri kominn á breytingar en sjö ár væri hæfilegur tími í forstjórastóli. Heimildir blaðsins herma að ólga sé innan hluthafahóps félagsins og að þorri 20 stærstu hluthafa félagsins hafi fyrst frétt af málinu þegar tilkynningin var send til Kauphallarinnar.
Finna má lengri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.