Kaup­höllin hvetur stjórn­völd til að auka val­frelsi ein­stak­linga í við­bótar­líf­eyris­sparnaði enn frekar og skoða hvort það mætti nýta hefð­bundna vörslu­reikninga verð­bréfa til að halda utan um hluta við­bótar­líf­eyris­sparnaðar ein­stak­linga.

Þetta kemur fram í um­sögn Kaup­hallarinnar um frum­varp fjár­mála­ráð­herra um að aukið val­frelsi ein­stak­linga í við­bótar­líf­eyris­sparnaði. Fyrir­hugaða laga­breytingin á að gera ein­stak­lingum kleift að á­kveða sjálfir fjár­festingar­stefnu sparnaðarins og breytingar á henni í sam­ráði við vörslu­aðila.

„Til að ná því mark­miði þarf að auka heimildir vörslu­aðila við­bótar­líf­eyris­sparnaðar til að bjóða við­skipta­vinum sínum að hafa per­sónu­legt val um fjár­festingar­stefnu við­bótar­líf­eyris­sparnaðar á þann veg að eig­andi slíks líf­eyris­sparnaðarins geti sjálfur á­kveðið fjár­festingar og á­vöxtun sparnaðarins,“ segir í sam­ráðs­gátt stjórn­valda um frum­varp Bjarna Bene­dikts­sonar fjár­mála­ráð­herra.

Í um­sögn Kaup­hallarinnar segir að nú­verandi upp­legg fjár­mála­ráð­herra sé ó­þarf­lega flókið.

„Ekki til þess fallnar að efla fjár­mála­læsi og fjár­hags­legt sjálfs­traust“

„Nú­verandi upp­legg felur í sér að „ein­stak­lingi [verði] gefinn kostur á að á­kveða sjálfur þá fjár­festingar­stefnu sem gilda á um [við­bótar­líf­eyris­sparnað] sem og [...] að ein­stak­lingur fái heimild til að gera breytingar á fjár­festingar­stefnunni í sam­ráði við vörslu­aðila“.

Samkvæmt Kauphöllinni felur þetta í sér að út­búinn verði sér­stakur við­auka­samningur milli vörslu­aðila líf­eyris­sparnaðar og ein­stak­lings sem kveður á um þá fjár­festingar­stefnu sem ein­stak­lingur velur sér.

„Án þess að vera með upp­lýsingar um ná­kvæma út­færslu telur Kaup­höllin þetta upp­legg hljóma ó­þarf­lega flókið og þar af leiðandi í á­kveðinni þver­sögn við eitt af megin­mark­miðum breytinganna, um að stuðla að aukinni hag­kvæmni í líf­eyris­kerfinu,“ segir í um­sögn Kaup­hallarinnar sem Árnína Steinunn Kristjáns­dóttir, yfir­lög­fræðingur Nas­daq á Ís­landi.

„Lík­legt er að þessi út­færsla myndi fela í sér aukinn kostnað og fyrir vikið væri ó­lík­legt að aðrir en tekju­hæstu ein­staklingarnir gætu nýtt sér þessa leið. Slíkar út­færslur væru því ekki til þess fallnar að efla fjár­mála­læsi og fjár­hags­legt sjálfs­traust al­mennings eða auka mögu­leika fólks til að sníða fjár­festingar að óskum sínum og hefðu að öllum líkindum tak­mörkuð á­hrif á fjár­mögnunar­um­hverfi ís­lenskra fyrir­tækja,“ segir enn fremur.

Vafasamt að útvíkka heimildir til óskráðra félaga

„Kaup­höllin hvetur því stjórn­völd til að skoða ein­faldari út­færslur á auknu val­frelsi ein­stak­linga í við­bótar­líf­eyris­sparnaði. Það mætti t. a. m. skoða hvort hægt væri að nýta hefð­bundna vörslu­reikninga verð­bréfa til að halda utan um hluta við­bótar­líf­eyris­sparnaðar ein­stak­linga, annað hvort í stað eða til við­bótar við þá út­færslu sem hér er til um­ræðu.“

Í út­færslu Kaup­hallarinnar yrðu stofnaðir sér­stakir vörslu­reikningar og inn­láns­reikningar í þessum til­gangi. Í stað þess að ein­staklingar þyrftu að á­kvarða fjár­festingar­stefnu í sam­ráði við vörslu­aðila líf­eyris­sparnaðar yrðu þeim settar fjár­festingar­heimildir.

„Til að tryggja gagn­sæi og jafn­ræði um að­gang að upp­lýsingum, sem og getu ein­stak­linga til að skipta um skoðun og færa sig á milli fjár­festinga, teldi Kaup­höllin eðli­legt að þær heimildir eins­korðuðust við verð­bréfa­sjóði, skráð verð­bréf og inn­láns­reikninga, sem eru þau sparnaðar­form sem eru sér­stak­lega hugsuð fyrir al­menning og njóta öflugrar fjár­festa­verndar skv. lögum.“

Kaup­höllin telur að það gæti verið vara­samt að út­víkka slíkar heimildir yfir á fjár­festingar í ó­skráðum fé­lögum, eins og eins og gefið er til kynna í skjali um mat á á­hrifum laga­setningar.

Reynsla Svía reynst góð

Ekki væri hægt að ráð­stafa eignum af við­bótar­líf­eyris­reikningum til annarra nota en lögin myndu heimila.

Þá telur Kaup­höllin mikil­vægt að á­form um aukið val­frelsi ein­stak­linga í við­bótar­líf­eyris­sparnaði nái til upp­safnaðs við­bótar­líf­eyris­sparnaðar en ekki einungis nýs sparnaðar eftir að lögin tækju gildi.

„Ef þessa er ekki gætt er hætt við að í reynd myndi hið aukna val­frelsi einungis ná til tekju­hærri ein­stak­linga þar sem hlut­falls­lega kostnaðar­samt getur verið að eiga við­skipti með lágar fjár­hæðir.

Sú út­færsla sem Kaup­höllin leggur til að verði skoðuð gæti náð fyrr­greindum við­bótar­mark­miðum um að efla fjár­mála­læsi og fjár­hags­legt sjálfs­traust al­mennings.“

Kaup­höllin segir að með þessu væri fólk hvatt til að kynna sér málin og ráð­stafa við­bótar­líf­eyris­sparnaði sínum eftir eigin höfði.

„Þetta myndi styrkja tengslin milli al­mennings og at­vinnu­lífs og efla skoðana­skipti á verð­bréfa­markaðnum. Meiri þátt­taka al­mennings á verð­bréfa­markaði með til­heyrandi aukningu í skoðana­skiptum væri til þess fallin að styrkja fjár­mögnunar­um­hverfi ís­lenskra fyrir­tækja, sem og að auka gagn­sæi og að­hald í at­vinnu­lífinu.“

„Þetta sýnir m. a. reynsla Svía, sem hafa verið í farar­broddi á heims­vísu í fjár­mögnun lítilla og meðal­stórra fyrir­tækja á al­mennings­hluta­bréfa­mörkuðum. Vel­gengni þeirra hefur að stóru leyti verið rakin til öflugrar þátt­töku al­mennings á hluta­bréfa­markaði, sem og fjöl­breyttri flóru smærri verð­bréfa­sjóða, sem eru lík­legri til að taka þátt í fjár­mögnun slíkra fyrir­tækja en stærri stofnana­fjár­festar,“ segir að lokum í um­sögn Kaup­hallarinnar.