Kauphöllin hvetur stjórnvöld til að auka valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrissparnaði enn frekar og skoða hvort það mætti nýta hefðbundna vörslureikninga verðbréfa til að halda utan um hluta viðbótarlífeyrissparnaðar einstaklinga.
Þetta kemur fram í umsögn Kauphallarinnar um frumvarp fjármálaráðherra um að aukið valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrissparnaði. Fyrirhugaða lagabreytingin á að gera einstaklingum kleift að ákveða sjálfir fjárfestingarstefnu sparnaðarins og breytingar á henni í samráði við vörsluaðila.
„Til að ná því markmiði þarf að auka heimildir vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar til að bjóða viðskiptavinum sínum að hafa persónulegt val um fjárfestingarstefnu viðbótarlífeyrissparnaðar á þann veg að eigandi slíks lífeyrissparnaðarins geti sjálfur ákveðið fjárfestingar og ávöxtun sparnaðarins,“ segir í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Í umsögn Kauphallarinnar segir að núverandi upplegg fjármálaráðherra sé óþarflega flókið.
„Ekki til þess fallnar að efla fjármálalæsi og fjárhagslegt sjálfstraust“
„Núverandi upplegg felur í sér að „einstaklingi [verði] gefinn kostur á að ákveða sjálfur þá fjárfestingarstefnu sem gilda á um [viðbótarlífeyrissparnað] sem og [...] að einstaklingur fái heimild til að gera breytingar á fjárfestingarstefnunni í samráði við vörsluaðila“.
Samkvæmt Kauphöllinni felur þetta í sér að útbúinn verði sérstakur viðaukasamningur milli vörsluaðila lífeyrissparnaðar og einstaklings sem kveður á um þá fjárfestingarstefnu sem einstaklingur velur sér.
„Án þess að vera með upplýsingar um nákvæma útfærslu telur Kauphöllin þetta upplegg hljóma óþarflega flókið og þar af leiðandi í ákveðinni þversögn við eitt af meginmarkmiðum breytinganna, um að stuðla að aukinni hagkvæmni í lífeyriskerfinu,“ segir í umsögn Kauphallarinnar sem Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, yfirlögfræðingur Nasdaq á Íslandi.
„Líklegt er að þessi útfærsla myndi fela í sér aukinn kostnað og fyrir vikið væri ólíklegt að aðrir en tekjuhæstu einstaklingarnir gætu nýtt sér þessa leið. Slíkar útfærslur væru því ekki til þess fallnar að efla fjármálalæsi og fjárhagslegt sjálfstraust almennings eða auka möguleika fólks til að sníða fjárfestingar að óskum sínum og hefðu að öllum líkindum takmörkuð áhrif á fjármögnunarumhverfi íslenskra fyrirtækja,“ segir enn fremur.
Vafasamt að útvíkka heimildir til óskráðra félaga
„Kauphöllin hvetur því stjórnvöld til að skoða einfaldari útfærslur á auknu valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrissparnaði. Það mætti t. a. m. skoða hvort hægt væri að nýta hefðbundna vörslureikninga verðbréfa til að halda utan um hluta viðbótarlífeyrissparnaðar einstaklinga, annað hvort í stað eða til viðbótar við þá útfærslu sem hér er til umræðu.“
Í útfærslu Kauphallarinnar yrðu stofnaðir sérstakir vörslureikningar og innlánsreikningar í þessum tilgangi. Í stað þess að einstaklingar þyrftu að ákvarða fjárfestingarstefnu í samráði við vörsluaðila lífeyrissparnaðar yrðu þeim settar fjárfestingarheimildir.
„Til að tryggja gagnsæi og jafnræði um aðgang að upplýsingum, sem og getu einstaklinga til að skipta um skoðun og færa sig á milli fjárfestinga, teldi Kauphöllin eðlilegt að þær heimildir einskorðuðust við verðbréfasjóði, skráð verðbréf og innlánsreikninga, sem eru þau sparnaðarform sem eru sérstaklega hugsuð fyrir almenning og njóta öflugrar fjárfestaverndar skv. lögum.“
Kauphöllin telur að það gæti verið varasamt að útvíkka slíkar heimildir yfir á fjárfestingar í óskráðum félögum, eins og eins og gefið er til kynna í skjali um mat á áhrifum lagasetningar.
Reynsla Svía reynst góð
Ekki væri hægt að ráðstafa eignum af viðbótarlífeyrisreikningum til annarra nota en lögin myndu heimila.
Þá telur Kauphöllin mikilvægt að áform um aukið valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrissparnaði nái til uppsafnaðs viðbótarlífeyrissparnaðar en ekki einungis nýs sparnaðar eftir að lögin tækju gildi.
„Ef þessa er ekki gætt er hætt við að í reynd myndi hið aukna valfrelsi einungis ná til tekjuhærri einstaklinga þar sem hlutfallslega kostnaðarsamt getur verið að eiga viðskipti með lágar fjárhæðir.
Sú útfærsla sem Kauphöllin leggur til að verði skoðuð gæti náð fyrrgreindum viðbótarmarkmiðum um að efla fjármálalæsi og fjárhagslegt sjálfstraust almennings.“
Kauphöllin segir að með þessu væri fólk hvatt til að kynna sér málin og ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum eftir eigin höfði.
„Þetta myndi styrkja tengslin milli almennings og atvinnulífs og efla skoðanaskipti á verðbréfamarkaðnum. Meiri þátttaka almennings á verðbréfamarkaði með tilheyrandi aukningu í skoðanaskiptum væri til þess fallin að styrkja fjármögnunarumhverfi íslenskra fyrirtækja, sem og að auka gagnsæi og aðhald í atvinnulífinu.“
„Þetta sýnir m. a. reynsla Svía, sem hafa verið í fararbroddi á heimsvísu í fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á almenningshlutabréfamörkuðum. Velgengni þeirra hefur að stóru leyti verið rakin til öflugrar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði, sem og fjölbreyttri flóru smærri verðbréfasjóða, sem eru líklegri til að taka þátt í fjármögnun slíkra fyrirtækja en stærri stofnanafjárfestar,“ segir að lokum í umsögn Kauphallarinnar.