Í síðustu viku greindi Viðskiptablaðið frá því að ADQ, einn af þjóðarsjóðum furstadæmisins Abú Dabí væri í kaupviðræðum vegna Marriot hótelsins sem stendur við Hörpu. Hefði frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um eignarhald erlendra aðila farið í gegn hefðu þær áætlanir runnið í sandinn.
Þann 14. júní eða daginn áður en frumvarpið var samþykkt var lögð til breytingartillaga þar sem framangreind 11. grein var fjarlægð úr frumvarpinu, meðal annars með vísan til umsagnar sem barst frá lögmannsstofunni BBA//FJELDCO.
Í umsögninni kom fram að lögum um eignarrétt og nýtingu fasteigna hafi margoft verið breytt og síðast árið 2020. Þá var bætt við nýrri málsgrein þess efnis að erlendu ríki, stjórnvaldi, ríkisfyrirtæki eða öðrum erlendum opinberum aðila yrði ekki veitt undanþága til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum frá 2020 kemur fram að hugtakið annar opinber aðili skuli túlkað rúmt fremur en þröngt. Hugtakið hafi þannig mjög víðtæka skilgreiningu og undir hana falla margir af stærstu hlutabréfasjóðum heims, norski olíusjóðurinn, opinberir lífeyrissjóðir (t.d. í Bandaríkjunum) og svokallaðir þjóðarsjóðir, líkt og Abú Dabíski sjóðurinn ADQ.
Gildissvið laganna nær bæði til beinna kaupa og beins afnotaréttar á fasteignum og til kaupa á félögum sem njóta fasteignaréttindi. Því gilda lögin þegar erlendur aðili kaupir hlut í félag sem á fasteign eða er með a.m.k. þriggja ára leigusamning um fasteign. Þannig ná lögin til nánast allra erlendra fjárfestingar í atvinnurekstri þar sem flest íslensk félög eiga annaðhvort fasteignir eða leigja.
Hingað til hafa aðrir opinberir aðilar getað fjárfest í íslenskum félögum sem eiga fasteignaréttindi í gegnum félög skráð innan EES á grundvelli undanþáguheimildar í lögunum. Hefði frumvarpið hins vegar farið óbreytt í gegn hefðu möguleikar framangreindra sjóða til fjárfestingar á Íslandi verið útilokaðir.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.