„Wise hefur byggt upp sterka stöðu í gegnum tíðina með öflugu framboði á viðskiptalausnum. Með kaupunum á Þekkingu bætast öflugar rekstrarlausnir Þekkingar við lausnaframboð Wise sem gerir vöru- og þjónustuframboð okkar heildastæðara en áður. Eftir sameininguna getum við því hjálpað viðskiptavinum okkar enn frekar við að einfalda reksturinn, auka sjálfvirkni og ná þannig samkeppnisforskoti,“ segir Jóhannes Helgi Guðjónsson, forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Wise. Í sumar gengu kaup félagsins á upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu í gegn.

„Wise hefur byggt upp sterka stöðu í gegnum tíðina með öflugu framboði á viðskiptalausnum. Með kaupunum á Þekkingu bætast öflugar rekstrarlausnir Þekkingar við lausnaframboð Wise sem gerir vöru- og þjónustuframboð okkar heildastæðara en áður. Eftir sameininguna getum við því hjálpað viðskiptavinum okkar enn frekar við að einfalda reksturinn, auka sjálfvirkni og ná þannig samkeppnisforskoti,“ segir Jóhannes Helgi Guðjónsson, forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Wise. Í sumar gengu kaup félagsins á upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu í gegn.

Engin lognmolla hefur ríkt hjá Wise síðustu sex ár. Árið 2018 náði Advania samkomulagi við þáverandi eigendur Wise, norska félagið AKVA Group ASA, um kaup fyrrnefnds félagsins á því síðarnefnda. Ekkert varð þó af samrunanum og var tilkynningin dregin til baka um mitt árið 2019 eftir að Samkeppniseftirlitið hafði skilað frummati sínu. Í kjölfarið náðust samningar milli núverandi eiganda félagsins, Adira ehf., og þáverandi eigenda um kaup Adira á Wise.

Eftir að Adira tók við eignarhaldi Wise var ákveðið að ráðast í töluverðar fjárfestingar til að stuðla að vexti félagsins og tryggja samkeppnishæfni þess til framtíðar. Jóhannes Helgi Guðjónsson hefur leitt Wise í gegnum þessa vegferð en hann tók við sem forstjóri félagsins í byrjun árs 2020. Frá þeim tíma hefur félagið vaxið jafnt og þétt, meðal annars með yfirtökum á smærri félögum í upplýsingatæknigeiranum. Til marks um vöxtinn störfuðu um 75 manns hjá Wise þegar Jóhannes tók við stjórnartaumunum en núna tæplega fimm árum síðar hefur starfsmannafjöldinn rúmlega tvöfaldast og nálgast 200 manns. Á sama tíma hefur lausnaframboð Wise aukist umtalsvert.

Kaupin á Clarito fyrsta skrefið

Fyrsta skrefið í vaxtarvegferð Wise var tekið sumarið 2020 er félagið festi kaup á ráðgjafafyrirtækinu Clarito sem sérhæfði sig í stjórnun viðskiptatengsla með Microsoft viðskipta- og skýjalausnum. Snemma árs 2022 gekk Wise svo frá kaupum á CoreData Solutions, sem þróaði og seldi stafrænar lausnir á borð við málaskrár-, verkefnastjórnunar- og skjalakerfið CoreData ECM.

Sumarið 2023 steig félagið svo sitt stærsta skref á umræddri vegferð er undirritaður var samningur um kaup Wise á öllu hlutafé Þekkingar. Kaupin hlutu blessun Samkeppniseftirlitsins í sumar og í kjölfarið voru félögin sameinuð undir merkjum Wise að Ofanleiti 2 í Reykjavík. Auk þess voru skrifstofur félaganna á Akureyri sameinaðar í nýju húsnæði að Hafnarstræti 91 í sumar. Wise er þar að auki með skrifstofu í Vilníus í Litháen.

Við sameininguna varð til eitt af öflugri upplýsingatæknifyrirtækjum landsins með tæplega 200 starfsmenn og yfir 4 milljarða í veltu. Jóhannes segir kaupin á Þekkingu hafa verið síðasta stóra púslið í umbreytingarferlinu sem Wise hefur gengið í gegnum á undanförnum árum.

Jóhannes segir Wise og Þekkingu smella vel saman sem ein heild. Wise hafi á að skipa öflugu framboði viðskiptalausna og Þekking öflugu framboði rekstrarlausna.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.