Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Erling Frey Guðmundsson, framkvæmdastjóra Ljósleiðarans. Þar ræðir hann meðal annars um nýlega þriggja milljarða kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar. Á sama tíma gengu félögin frá 12 ára þjónustusamningi um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans, sem og þjónustu um internettengingar til útlanda.
Erling Freyr segir kaupin á stofnneti Sýnar hjálpa Ljósleiðaranum að auka fjarskiptaöryggi hér á landi til mikilla muna með nýjum og öflugri landshring. Þar að auki styrki samningurinn samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að bjóða fólki og fyrirtækjum upp á val um gagnaflutninga um ljósleiðara víðast hvar um landið. Þá tryggi samningurinn áframhald á góðu samstarfi við einn stærsta viðskiptavin Ljósleiðarans frá upphafi.
Spurður um hvernig Ljósleiðarinn hyggst fjármagna kaupin á stofnneti Sýnar segir Erling Freyr að kaupin verði fjármögnuð með bankaláni á „ágætis kjörum“. „Ég væri vissulega til í að kjörin væru hagstæðari en í ljósi þess hve hátt vaxtastigið í landinu er í dag tel ég þau nokkuð góð.“
Fyrirhuguð hlutafjáraukning tengist þar af leiðandi ekki fjármögnun á kaupunum á stofnneti Sýnar með beinum hætti. „Samningurinn við Sýn er að fullu fjármagnaður en það breytir því ekki að við viljum ráðast í ákveðnar breytingar á fjármagnsskipun félagsins til framtíðar. Það er engin tenging á milli samningsins við Sýn og hlutafjáraukningarinnar önnur en sú að þetta er að eiga sér stað á svipuðum tíma. Fjarskiptamarkaðurinn er að breytast hratt og við stjórnendur fyrirtækisins verðum að gæta hagsmuna þess og þetta er einn liður í því. Ef verðbólga og vaxtarstig væri ekki eins og það er á Íslandi værum við ekkert endilega að sækjast eftir því að breyta fjármagnsskipan félagsins. Það eru hættumerki um allan heim og mikil óvissa, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu. Með auknu hlutafé getum við styrkt stöðu félagsins enn frekar á þessum óvissutímum.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.