Fjárfestingarbankinn UBS hefur náð samkomulagi um kaup á Credit Suisse á 2 milljarða dala, eða sem nemur um 280 milljörðum króna. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag bauðst UBS til að kaupa svissneska bankann á allt að 1 milljarð dala. Fjárfestingarbankinn hefur nú aftur á móti ákveðið að tvöfalda fyrra boð og hefur það boð nú verið samþykkt.

Tilboð UBS felur í sér að hluthafar Credit Suisse fái 0,5 franka á hlut greitt í hlutabréfum UBS, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times. Um er að ræða aðeins brot af 1,86 franka dagslokagengi Credit Suisse á föstudaginn.

Svissnesk yfirvöld hafa unnið hörðum höndum að því að bjarga Credit Suisse frá gjaldþroti og nú virðist þeim hafa tekist ætlunarverk sitt.