Félagið Hólá ehf. hefur fest kaup á jörðinni Útey 1, sem staðsett er í Bláskógabyggð, á 360 milljónir króna. Jörðin er 320 hektarar að stærð og er staðsett á milli Apavatns og Laugarvatns. Eigandi Hólár er fjárfestirinn Árni Jensen en hann var eitt sinn meðal hluthafa Borealis Data Center, sem á og rekur gagnaver á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ, auk þess að sitja í framkvæmdastjórn félagsins.
Seljendur jarðarinnar eru Skúli, Guðrún og Haukur Hauksbörn sem hvert um sig átti 25% hlut í jörðinni. Eftirstandandi fjórðungshlutur var svo í eigu Hilmars Baldurs Baldurssonar og barna hans Vilhjálms, Örnu, Ágústs og Þuríðar.
Samkvæmt fasteignasíðunni fastinn.is var jörðin upphaflega sett á sölu í maí árið 2019. Hún var svo tekin af skrá í byrjun árs 2020 en aftur skráð til sölu í lok árs 2021.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.