Ragna Margrét Guðmundsdóttir er einn stofnenda Pikkoló sem vinnur að þróun á snjalldreifikerfi fyrir matvöruverslanir á netinu. Pikkoló stefnir að því að koma upp kældum sjálfsafgreiðslustöðvum í nærumhverfi fólks, þar sem það getur sótt mat- og dagvörur sem pantaðar hafa verið á netinu.
Hún segir örar breytingar hafa orðið á umhverfi matvöruverslana undanfarin ár. Minningin um kaupmanninn á horninu verði sífellt fjarlægari samferða því að stórverslanir færist í mörgum tilfellum fjær neytendum. „Við köllum þetta í raun sjálfbæra þróun kaupmannsins á horninu – sama upplifun í nútímalegri útfærslu.“
Á síðasta ári var frumgerð Pikkoló opnuð fyrir utan Byko í Breiddinni, þar sem litlum hópi viðskiptavina Eldum rétt hefur verið boðið að sækja pantanirnar sínar. „Með því að afhenda örfáar sendingar á mánudögum í gegnum frumgerðina hefur okkur tekist að spara um það bil 100 km af akstri í hverri viku sem annars hefði farið í að keyra í heimahús með sendingar.”
Áætlað er að opna fyrstu sjálfsafgreiðslustöð Pikkoló í september fyrir utan Grósku í Vatnsmýrinni.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.