Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann saman um 5,2% á öðrum ársfjórðungi, samanborið við sama ársfjórðung 2022, og var það fjórði ársfjórðungurinn í röð sem kaupmáttur dróst saman á þann mælikvarða.

Hagstofan hafði reyndar neyðst til að leiðrétta fyrri tilkynningu, þar sem upprunalega kom fram að kaupmáttur hafði dregist saman um 6,1%. Þá sagði að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist um 2,4% árið 2022 en hið rétta var að hann hefði rýrnað um 0,1%.

Forseti ASÍ sagði í viðtali við Ríkisútvarpið eftir að upprunalegu tölur Hagstofunnar voru birtar að verkalýðshreyfingin myndi taka kaupmáttarskerðinguna með sér inn í kjaraviðræður og spáði formaður VR hörðum samningsvetri.

Í nýrri samantekt Viðskiptaráðs eru helstu staðreyndir málsins þó dregnar fram en þar sést bersýnilega að Ísland sker sig úr í alþjóðlegum samanburði.

Sé miðað við mælikvarða launa í framleiðslugreinum, sem gjarnan er notaður í alþjóðlegum samanburði, sést að kaupmáttur launa á Íslandi hefur aukist um 37% frá árinu 2012. Gríðarlegur vöxtur varð fram til ársins 2021 en árið 2022 og á fyrra helmingi ársins 2023 stóð kaupmáttur í stað.

Í samanburðarríkjunum hefur þróunin verið önnur og halda launahækkanir ekki í við verðbólgu. Kaupmáttur rýrnaði hjá öllum samanburðarríkjunum, á Norðurlöndunum, Evrusvæðinu, Bretlandi, í Bandaríkjunum og Þýskalandi, milli 2021 og 2022 eða um allt að 9%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.