Samkvæmt tölum Hagstofunnar jukust ráðstöfunartekjur heimila á mann um 2,8% árið 2024. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,8% í fyrra en vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9% á sama tímabili.
Þar segir jafnframt að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið tæplega 6,3 milljónum króna árið 2024, eða 8,8% meiri milli ára.
„Heildartekjur heimilanna jukust árið 2024 um 8,1% frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að hafi aukist um rúma 158 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur 6,9%. Á sama tímabili jukust skattar á laun um rúma 45 milljarða eða um 6,9%,“ segir í greiningu.
Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 6,6% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um 2,2% á sama tímabili.
Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 10,1% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár en á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um 16,6%.