Tillaga stjórnar Haga um að setja á fót kaupréttarkerfi til handa lykilstarfsmönnum í félaginu var samþykkt á hluthafafundi í morgun með 58,8% atkvæða, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Nánar tiltekið þá var breytingartillaga stjórnar Haga á breytingartillögu Gildis lífeyrissjóðs vegna kaupréttarkerfisins samþykkt.
Tillaga stjórnar Haga um að setja á fót kaupréttarkerfi til handa lykilstarfsmönnum í félaginu var samþykkt á hluthafafundi í morgun með 58,8% atkvæða, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Nánar tiltekið þá var breytingartillaga stjórnar Haga á breytingartillögu Gildis lífeyrissjóðs vegna kaupréttarkerfisins samþykkt.
Kaupréttarkerfið felur í sér að stjórn Haga verði heimilt að úthluta allt að 17.702.862 hlutum í Högum, eða sem samsvarar 1,6% af hlutafé smásölufyrirtækisins, til forstjóra, framkvæmdastjóra og tiltekinna starfsmanna í lykilstöðum.
Hver kaupréttarhafi, sem hluti af kerfinu, getur að hámarki átt rétt á kaupréttarsamningum sem nema 0,18% af hlutafé Haga.
Nýtingarverð hvers hlutar samkvæmt kaupréttarsamningi hverju sinni skal samsvara dagslokagengi hlutabréfa í Högum degi fyrir úthlutun. Nýtingarverðið skal einnig leiðrétt með 5,5% árlegum vöxtum til hækkunar frá úthlutunardegi og fram að fyrsta mögulega nýtingardegi.
Drógu úr umfangi kerfisins
Stjórn Haga lagði upphaflega fram tillögu um kaupréttarkefið á aðalfundi félagsins í maí. Á aðalfundinum var kaupréttarkefið hins vegar frestað eftir að hafa mætt andstöðu frá ákveðnum lífeyrissjóðum, einkum Gildi.
Eftir samtöl við stærstu hluthafa félagsins í kjölfar aðalfundarins breytti stjórn Haga tillögu sinni og dró úr umfangi kaupréttarkerfisins. Heildarfjöldi hluta í kaupréttarkerfi var minnkaður, hámarks úthlutun á hvern starfsmann lækkuð og vextir til leiðréttingar nýtingarverðs hækkaðir.
Tilgangur hluthafafundarins í dag var einkum að leggja fram uppfærðu tillöguna fyrir hluthafa félagsins.
„Kaupréttarkerfið tekur við af eldra kerfi og skapar samfellu og æskilega hvata fyrir lykilfólk innan samstæðu Haga til að ná árangri og horfa til lengri tíma. Kaupréttarhafi hagnast ekki á kaupréttarkerfinu nema með aðgerðum sem hafa jákvæð áhrif á hlutabréfaverð til lengri tíma litið og er kerfið þannig upp byggt að ekki er litið til skammtímaáhrifa á gengi hlutabréfa í félaginu,“ segir í greinargerðstjórnar stjórnar Haga um kaupréttarkerfið.
Gildi vildi enn lægra hámark og hærri viðbætta vexti
Á þriðjudaginn var tilkynnt um að Gildi lífeyrissjóður hefði lagt inn breytingartillögu sem fólst m.a. í að hinir árlegu vextir sem nýtingarverðið miðast við yrðu 7,5% en ekki 5,5%.
Gildi sagðist telja tillögu stjórnar um 5,5% árlega hækkun nýtingarverðs vera undir því sem eðlilegt getur talist, meðal annars með hliðsjón af þeirri ávöxtunarkröfu sem hluthafar og aðrir fjárfestar eru líklegir til að gera til hlutabréfa félagsins.
Auk þess lagði Gildi til að kaupréttarhafi geti að hámarki fengið úthlutað kaupréttum sem nema 0,15% af núverandi hlutafé Haga.
„Gildi-lífeyrissjóður telur enn fremur rétt að litið sé til heildarsamhengis launa stjórnenda félagsins við mótun á umfangi kerfisins. Svo virðist sem hið nýja kerfi sé hugsað sem hrein viðbót við núverandi grunnlaun og árangurstengdar launagreiðslur. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um þessi kjör telur sjóðurinn að tillaga stjórnar um 0,2% hámarks úthlutun til forstjóra og einstakra stjórnenda í hinu nýja kaupréttarkerfi sé of viðamikil.“
Stjórn Haga lagði í kjölfarið fram breytingartillögu á breytingartillögu Gildis þar sem farin var millileið með hámarks úthlutun til hvers kaupréttarhafi og miðar það við 0,18%. Stjórn Haga hélt hins vegar hinum árlegu vöxtum í kerfinu óbreyttum í 5,5%.