Stjórn Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, leggur til við aðalfund félagsins þann 6. mars næstkomandi að settar verða á fót kaupréttaáætlanir, ein fyrir alla fastráðna starfsmenn samstæðunnar og önnur fyrir forstjóra og lykilstjórnendur. Þetta kemur fram í tillögum stjórnar fyrir aðalfundinn.

Í greinargerð stjórnar kemur fram að kaupréttarkerfi hafi ekki verið við lýði hjá Festi.

Stjórn Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, leggur til við aðalfund félagsins þann 6. mars næstkomandi að settar verða á fót kaupréttaáætlanir, ein fyrir alla fastráðna starfsmenn samstæðunnar og önnur fyrir forstjóra og lykilstjórnendur. Þetta kemur fram í tillögum stjórnar fyrir aðalfundinn.

Í greinargerð stjórnar kemur fram að kaupréttarkerfi hafi ekki verið við lýði hjá Festi.

Stjórnin segir markmiðið með veitingu kauprétta vera að tengja hagsmuni allra fastráðinna starfsmanna samstæðunnar við afkomu og langtímamarkmið félagsins og þar með langtímahagsmuni hluthafa þess. Jafnframt eigi kerfið að stuðla að því að Festi geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk og stjórnendur.

Kostnaður kaupréttarkerfisins um 380 milljónir

Áætlaður kostnaður vegna kaupréttaráætlananna tveggja, byggt á Black Scholes útreikningum, er að fjárhæð 382 milljónir króna á tímabilinu.

Þar af er áætlaður kostnaður vegna kaupréttaráætlunar fyrir allt fastráðið starfsfólk samstæðunnar tæplega 240 milljónir króna. Kostnaður vegna kaupréttaráætlunar fyrir lykilstjórnendur er áætlaður um 142 milljónir.

Geta keypt fyrir hálfa milljón á ári

Sem fyrr segir mun stjórn Festi leggja fram tillögu um kaupréttaráætlun sem nær til allra fastráðinna starfsmanna samstæðunnar. Samkvæmt tillögunni skulu réttindi starfsmanna í kaupréttarkerfinu vera þau sömu án tillits til starfsaldurs, starfsábyrgðar eða launaflokka. Nánari upplýsingar um fyrirhugaða kaupréttarkerfið má finna hér.

Áætlunin gerir ráð fyrir að kaupréttarsamningar verði gerðir við þá starfsmenn sem það kjósa, sem heimilar þeim að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að 500 þúsund krónur á hverju ári í þrjú ár frá veitingu kaupréttar.

Stjórn Festi segir að kaupréttaráætlunin sé í samræmi við 10. grein laga um tekjuskatt en slíkir kaupréttir njóta sérstaks hagræðis fyrir starfsmenn þar sem allar tekjur vegna þeirra eru skattlagðar sem fjármagnstekjur að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Fram kemur að starfsmenn verði að eiga keypta hluti í tvö ár hið skemmsta, vilji þeir nýta skattalegar ívilnanir sem í áætluninni felast.

Samkvæmt tillögunni munu starfsmenn sem ráðast til félagsins eða dótturfélaga eftir gerð kaupréttaráætlunar einnig öðlast kauprétt sem og starfsmenn félaga sem koma ný inn í samstæðu félagsins, á gildistíma hennar.

Því má gera ráð fyrir að fastráðnir starfsmenn Lyfju myndu einnig fá úthlutaða kauprétti að því gefnu að Samkeppniseftirlitið heimili kaup Festi á félaginu.

Lykilstjórnendur fái kauprétti að allt að 1,8% hlut

Stjórn Festi mun einnig leggja fram aðskilda kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn samstæðunnar.

Heildarfjöldi hluta sem heimilt yrði að veita lykilstjórnendum kauprétt að, á grundvelli kaupréttaráætlunarinnar, er 5,5 milljónir eða sem samsvarar um 1,8% af heildarhlutafé Festi í dag.

Samkvæmt kaupréttaráætluninni geta forstjóri og framkvæmdastjórar félagsins að hámarki átt rétt á kaupréttum sem nema 6% af úthlutuðum hlutum en aðrir stjórnendur og lykilstarfsmenn að hámarki 2% af úthlutuðum hlutum á hverjum tíma.

Veittir kaupréttir munu ávinnast á þremur árum en nýtingu kaupréttar verður dreift yfir eitt ár að ávinnslutímabili loknu. Nánari upplýsingar um fyrirhuguðu kaupréttaráætlunina má finna hér.

Auk áformaða kaupréttarkerfisins, sem stjórn Festi mun leggja fram á næsta aðalfundi, er í gildi kaupaukakerfi fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og aðra tilgreinda starfsmenn.

Kaupaukaáætlunin byggir á fyrirfram skilgreindum og mælanlegum árangursviðmiðum, sem tengjast annars vegar EBITDA-hagnaði rekstrarárs og hins vegar fjárhags- og ófjárhagslegum markmiðum sem stjórnendum eru sett.

Fjárhæð kaupauka á ársgrundvelli geta að hámarki svarað til 3 mánaða grunnlauna fyrir forstjóra og framkvæmdastjóra.

Í skýrslu starfskjaranefndar Festi kemur fram að Ásta Fjeldsted, forstjóri Festi, hafi fengið ígildi þriggja mánaðarlauna í kaupauka vegna rekstrarársins 2023. Þá fengu fimm framkvæmdastjórar ígildi samtals 11,27 mánaðarlauna og tveir fyrrum framkvæmdastjórar ígildi samtals 2,64 mánaðarlauna.