Samkvæmt gögnum HMS voru gefnir út 784 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í september sem gerir 730 samninga þegar leiðrétt hefur verið fyrir reglubundnum árstíðasveiflum.
Kaupsamningum fjölgar um 4% milli mánaða sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur og í fyrsta skipti á árinu voru kaupsamningar í mánuðinum fleiri í ár samanborið við sama mánuð síðasta árs.
„Kaupsamningar í september voru 110 fleiri samanborið við ágústmánuð og má rekja fjölgun þeirra til fjölgunar kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu. Kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 517 í september, í nágrannasveitarfélögum þess voru þeir 130 og annars staðar á landinu voru 137 samningar um íbúðarhúsnæði. Meðalfjárhæð kaupsamnings á höfuðborgarsvæðinu var 79,4 m. kr., 54,5 m. kr. í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 49,3 m. kr. annars staðar á landinu.“
Af þessum 517 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 100 samningar um kaup á nýjum íbúðum.
Kaupsamningum um nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu fjölgar um 64% milli mánaða en í ágúst var gerður 61 kaupsamningur um nýtt íbúðarhúsnæði.
Í Reykjavík voru gerðir samningar um 289 íbúðir, þar af 36 nýjar, en hæst hlutfall kaupsamninga vegna nýrra íbúða innan höfuðborgarsvæðisins var í Garðabæ eða 47%, þar sem 35 samningar af 75 voru um nýjar íbúðir.
Í Hafnarfirði seldust 52 íbúðir, þar af 14 nýjar íbúðir, og í Kópavogi var 71 kaupsamningur gerður, þar af 9 um nýjar íbúðir.
Í Mosfellsbæ voru gerðir kaupsamningar um 24 íbúðir, þar af 6 um nýjar íbúðir og á Seltjarnarnesi voru 6 kaupsamningar gerðir.
„Aukið líf hefur færst í umsóknir og afgreiðslu hlutdeildarlána“
Hlutfall ungra kaupenda, 30 ára og yngri, hækkaði á þriðja ársfjórðungi. Ungir kaupendur voru 28% af heildarfjölda kaupenda í fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi samanborið við 19,5% á öðrum ársfjórðungi.
Þá greinir HMS frá því að „aukið líf hefur færst í umsóknir og afgreiðslu hlutdeildarlána HMS frá og með júní á þessu ári þegar hámarksverð íbúða og tekjuviðmið umsækjanda voru hækkuð.“
Hlutdeildarlán eru úrræði fyrir fyrstu kaupendur sem eru undir ákveðnum tekjumörkum. Lánin eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af HMS og uppfylla skilyrði hlutdeildarlána m.t.t. stærðar og hámarksverðs. Fyrstu kaupendur eru þeir sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár.
„Á árunum 2020 til 2022 var hlutur ungra kaupenda óvenju hár og náði hann hámarki á þriðja ársfjórðungi 2021 þegar hlutfallið var 31,2%. Á árunum 2009-2018 var hlutfall ungra kaupenda hins vegar yfirleitt lægra en það er nú. Skýra má fjölgun kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi að miklu leyti til fjölgunar ungra kaupenda,“ segir í skýrslunni.
Kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi voru 1.342 samanborið við 1.159 á öðrum ársfjórðungi. Á sama tíma fór fjöldi ungra kaupenda úr 226 í 375 milli ársfjórðunga.
Á sama tíma fór fjöldi ungra kaupenda úr 226 í 375 milli ársfjórðunga. Þegar aðgengi að lánamörkuðum breytist hefur það að jafnaði mest áhrif á unga kaupendur sem eru annað hvort að kaupa sína fyrstu fasteign eða eru með lítið eigið fé. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2021 þegar vextir voru með lægsta móti voru ungir kaupendur 1.300 talsins.
Samkvæmt HMS eru merki um að meira jafnvægi sé að komast á fasteignamarkaðinn. Fleiri íbúðir hafa verið teknar úr sölu síðustu tvo mánuði en síðasta ár þar á undan.
„Samkvæmt skammtímavísi hagdeildar voru 668 fasteignir teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu í október sem er lítils háttar samdráttur frá því sem var í september þegar 717 fasteignir voru teknar úr sölu.“