Öll skráð félög í kauphöllinni lækkuðu í viðskiptum gærdagsins og lækkaði úrvalsvísitalan OMXI 15 um 3,95%.
Vísitalan lokaði í 2747,71 stigum og hafði þá ekki verið lægri síðan í nóvember í fyrra.
Þegar þetta er skrifað stendur vísitalan í 2.808,37 stigum eftir 2,21% hækkun í viðskiptum dagsins.
Stærsti viðsnúningurinn er á gengi vaxtarfélaga á Bandaríkjamarkaði en hlutabréfaverð augnlyfjafyrirtækisins Oculis hefur hækkað um 4% í 139 milljón króna viðskiptum í dag.
Gengi Oculis lækkaði um rúm 7% í viðskiptum gærdagsins. Dagslokagengið var 2.540 krónur en stendur í 2.640 krónum á hlut.
Gengi Alvotech lækkaði um rúm 6% í gær og var daglokagengið 1.485 krónur sem var lægsta dagslokagengi líftæknilyfjafélagsins frá september í fyrra. Gengið stendur í 1.540 krónum þegar þetta er skrifað eftir tæplega 4% hækkun í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um rúm 3% í viðskiptum dagsins og stendur í 163,5 krónum. Dagslokagengi Amaroq í gær var 158,5 krónur eftir um 18,5% lækkun síðastliðinn mánuð.
Gengi flugfélaganna er einnig á uppleið er gengi Icelandair hefur hækkað um tæp 4% í 114 milljón króna viðskiptum á meðan gengi Play hefur hækkað um 3,5% í örviðskiptum.
Heildarvelta um hádegisbilið í dag var 2,9 milljarðar króna.