Hluta­bréfa­markaðir vestan­hafs hófu vikuna með mikilli hækkun eftir að Bandaríkin og Kína náðu óvæntu sam­komu­lagi um að lækka tolla sín á milli.

Sam­komu­lagið, sem kynnt var að loknum helgar­viðræðum í Genf, felur í sér róttæka niðurfærslu á gagn­kvæmum tollum, sem hefur dregið veru­lega úr spennu í við­skipta­sam­bandi þjóðanna og vakið bjartsýni á alþjóð­legum mörkuðum.

Tollar sem áður höfðu verið hækkaðir í 125 pró­sent voru nú lækkaðir niður í 10 pró­sent á báða bóga og vakti þetta mikla eftir­væntingu á mörkuðum um heim allan.

Við opnun markaða á mánu­dags­morgni brugðust fjár­festar við með kraft­mikilli eftir­spurn. Nas­daq Composite, þar sem tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, rauk upp um tæp 4%. S&P 500 styrktist um 2,7% og náði þar með að endur­heimta lækkunina sem fylgdi svo­kölluðum „frelsis­degi“ Trumps for­seta þann 2. apríl síðastliðinn, þegar nýir tollar voru boðaðir.

Dow Jones-iðn­vísi­talan fylgdi fast á eftir og hækkaði um 2,% sam­kvæmt af­leiðu­samningum.

Sam­hliða þessari þróun lækkaði VIX-vísi­talan, sem oft er kölluð ótta­vísi­tala Wall Street, niður fyrir viðmiðunar­mörk og stóð í 19,3 eftir að hafa fallið um nær 12 pró­sent.

Þetta bendir til þess að markaðir telji minni líkur á bráðri ókyrrð en áður.

Apple og Tesla leiða hækkanir

Fjár­festar beindu sjónum að fyrir­tækjum sem hafa um­tals­verða starf­semi í Kína eða eru háð sam­skiptum við kín­verska markaði.

App­le, sem fram­leiðir stóran hluta vöru sinnar þar, hækkaði um 4,85% og fór gengið í 207,88 bandaríkja­dali á hlut. Tesla, sem selur veru­legt magn af bílum í Kína, hækkaði um 6,36% og fór í 317,22 bandaríkja­dali á hlut.

Í sam­tali við CNBC eftir fundina stað­festi fjár­málaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bes­sent, að áfram­haldandi samningar væru í far­vatninu.

„Við náðum miklu fram á aðeins tveimur dögum, þannig að ég reikna með að við hittumst aftur innan nokkurra vikna til að hefja vinnu að víðtækara sam­komu­lagi,“ sagði hann og vísaði þar til maraton­samninga­viðræðna helgarinnar.

Efna­hags­leg bjartsýni í kjölfar sam­komu­lagsins styrkti bandaríkja­dalinn gagn­vart hefðbundnum öruggum gjald­miðlum eins og sviss­neskum franka og japönskum jenum.

Gjald­miðla­vísi­tala WSJ fór í sitt hæsta gildi í rúman mánuð. Á sama tíma lækkuðu bandarísk ríkis­skulda­bréf í verði þegar fjár­festar sóttu í áhættu­meiri eignir á hluta­bréfa­markaði.

Jákvæð áhrif víða

Í Asíu leiddu raf­tækja­fram­leiðendur eins og Lenovo hækkunina, og í Evrópu nutu fyrir­tæki á borð við Kering, Stellantis og ASML góðs af viðsnúningi væntinga.

Í Dan­mörku hækkaði flutninga­risinn A.P. Moeller-Maersk um 12% í við­skiptum dagsins, þrátt fyrir að hafa nýverið varað við allt að 40 pró­senta sam­drætti í gáma­flutningum milli Bandaríkjanna og Kína frá aprílmánuði.

Sterkari efna­hags­horfur leiddu einnig til aukinnar eftir­spurnar eftir hrávörum.

Brent hráolía hækkaði um nær þrjú pró­sent og fór tunnan í 65,70 bandaríkja­dali. Hluta­bréf í námu­vinnslu­fyrir­tækjum á borð við Glencor­e tóku einnig við sér.

Þrátt fyrir að þetta sam­komu­lag marki tíma­bundinn áfanga­sigur telja sumir sér­fræðingar að sýna beri varkárni.

Við­skipta­sam­band þessara tveggja stærstu hag­kerfa heimsins hefur áður verið viðkvæmt fyrir pólitískum snúningum og enn er óljóst hvort komist verði að varan­legu sam­komu­lagi um framtíðar­fyrir­komu­lag við­skipta.

Hins vegar virðist nú liggja vilji til frekari samræðna og lausna, og það eitt dugar fjár­festum um heim allan til að sjá sólar­glætu í horfum næstu vikna.