Hlutabréfamarkaðir vestanhafs hófu vikuna með mikilli hækkun eftir að Bandaríkin og Kína náðu óvæntu samkomulagi um að lækka tolla sín á milli.
Samkomulagið, sem kynnt var að loknum helgarviðræðum í Genf, felur í sér róttæka niðurfærslu á gagnkvæmum tollum, sem hefur dregið verulega úr spennu í viðskiptasambandi þjóðanna og vakið bjartsýni á alþjóðlegum mörkuðum.
Tollar sem áður höfðu verið hækkaðir í 125 prósent voru nú lækkaðir niður í 10 prósent á báða bóga og vakti þetta mikla eftirvæntingu á mörkuðum um heim allan.
Við opnun markaða á mánudagsmorgni brugðust fjárfestar við með kraftmikilli eftirspurn. Nasdaq Composite, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, rauk upp um tæp 4%. S&P 500 styrktist um 2,7% og náði þar með að endurheimta lækkunina sem fylgdi svokölluðum „frelsisdegi“ Trumps forseta þann 2. apríl síðastliðinn, þegar nýir tollar voru boðaðir.
Dow Jones-iðnvísitalan fylgdi fast á eftir og hækkaði um 2,% samkvæmt afleiðusamningum.
Samhliða þessari þróun lækkaði VIX-vísitalan, sem oft er kölluð óttavísitala Wall Street, niður fyrir viðmiðunarmörk og stóð í 19,3 eftir að hafa fallið um nær 12 prósent.
Þetta bendir til þess að markaðir telji minni líkur á bráðri ókyrrð en áður.
Apple og Tesla leiða hækkanir
Fjárfestar beindu sjónum að fyrirtækjum sem hafa umtalsverða starfsemi í Kína eða eru háð samskiptum við kínverska markaði.
Apple, sem framleiðir stóran hluta vöru sinnar þar, hækkaði um 4,85% og fór gengið í 207,88 bandaríkjadali á hlut. Tesla, sem selur verulegt magn af bílum í Kína, hækkaði um 6,36% og fór í 317,22 bandaríkjadali á hlut.
Í samtali við CNBC eftir fundina staðfesti fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, að áframhaldandi samningar væru í farvatninu.
„Við náðum miklu fram á aðeins tveimur dögum, þannig að ég reikna með að við hittumst aftur innan nokkurra vikna til að hefja vinnu að víðtækara samkomulagi,“ sagði hann og vísaði þar til maratonsamningaviðræðna helgarinnar.
Efnahagsleg bjartsýni í kjölfar samkomulagsins styrkti bandaríkjadalinn gagnvart hefðbundnum öruggum gjaldmiðlum eins og svissneskum franka og japönskum jenum.
Gjaldmiðlavísitala WSJ fór í sitt hæsta gildi í rúman mánuð. Á sama tíma lækkuðu bandarísk ríkisskuldabréf í verði þegar fjárfestar sóttu í áhættumeiri eignir á hlutabréfamarkaði.
Jákvæð áhrif víða
Í Asíu leiddu raftækjaframleiðendur eins og Lenovo hækkunina, og í Evrópu nutu fyrirtæki á borð við Kering, Stellantis og ASML góðs af viðsnúningi væntinga.
Í Danmörku hækkaði flutningarisinn A.P. Moeller-Maersk um 12% í viðskiptum dagsins, þrátt fyrir að hafa nýverið varað við allt að 40 prósenta samdrætti í gámaflutningum milli Bandaríkjanna og Kína frá aprílmánuði.
Sterkari efnahagshorfur leiddu einnig til aukinnar eftirspurnar eftir hrávörum.
Brent hráolía hækkaði um nær þrjú prósent og fór tunnan í 65,70 bandaríkjadali. Hlutabréf í námuvinnslufyrirtækjum á borð við Glencore tóku einnig við sér.
Þrátt fyrir að þetta samkomulag marki tímabundinn áfangasigur telja sumir sérfræðingar að sýna beri varkárni.
Viðskiptasamband þessara tveggja stærstu hagkerfa heimsins hefur áður verið viðkvæmt fyrir pólitískum snúningum og enn er óljóst hvort komist verði að varanlegu samkomulagi um framtíðarfyrirkomulag viðskipta.
Hins vegar virðist nú liggja vilji til frekari samræðna og lausna, og það eitt dugar fjárfestum um heim allan til að sjá sólarglætu í horfum næstu vikna.