Kaup VÍS á Fossum fjárfestingarbanka eru nú frágengin, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Kaupverðið hefur verið lækkað þar sem afkoma Fossa á fyrstu sex mánuðum ársins var undir áætlun en fjárfestingarbankinn tapaði um 290 milljónum króna á fyrri árshelmingi.

Kaup VÍS á Fossum fjárfestingarbanka eru nú frágengin, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Kaupverðið hefur verið lækkað þar sem afkoma Fossa á fyrstu sex mánuðum ársins var undir áætlun en fjárfestingarbankinn tapaði um 290 milljónum króna á fyrri árshelmingi.

Til stóð að hluthafar Fossa myndu fá útgefna 245 milljón nýja hluti í VÍS sem endurgjald í viðskiptunum, eða sem nemur 12,62% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu. Eftir breytinguna er endurgjaldið 210 milljón nýir hlutir, eða sem nemur 11,01% hlutafjár eftir hlutafjáraukningu.

Sé miðað við 15,7 króna dagslokagengi hlutabréfa VÍS á föstudaginn má ætla að kaupverðið lækki um tæplega 550 milljónir króna. Nánar tiltekið lækkar endurgjald um 35 milljónir nýja hluti í VÍS, eða um 1,61% hlutafjár eftir hlutafjáraukningu, sem er um 550 milljónir króna að markaðsvirði í dag.

„Frestun á stórum tekjuberandi verkefnum ásamt erfiðum markaðsaðstæðum gera það að verkum að árshlutauppgjör Fossa fjárfestingarbanka hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins var ekki í takt við áætlanir en tap á tímabilinu nam um 290 milljónum króna,“ segir í tilkynningunni.

„Endanlegt kaupverð hefur því verið aðlagað með lækkun sem nemur mismun á áætluðu og raunverulegu eigin fé Fossa við uppgjör kaupanna.“

Nýtt hlutafé VÍS, sem greitt er sem endurgjald fyrir allt hlutafé Fossa, er háð sölubanni í þrjú ár frá uppgjöri. Hlutirnir verða afhentir seljendum Fossa í kjölfar skráningar hjá fyrirtækjaskrá Skattsins og töku þeirra til viðskipta hjá Nasdaq, sem gert er ráð fyrir að verði við upphaf dags miðvikudaginn 4. október.

Auka hlutafé Fossa um 1,4 milljarða króna

Stjórn VÍS hefur samþykkt hlutafjáraukningu í Fossum sem nemur tæplega 1,4 milljarði króna og samanstendur af hlutafé og umbreytingu víkjandi láns. Hlutafjáraukningin er í samræmi við áætlanir sameinaðs félags um frekari sókn í fjárfestingarbankastarfsemi.

„Hlutafjáraukningin eykur fjárhagslegan styrk bankans og styður við fyrirliggjandi áform um hraðan vöxt í bankastarfsemi og markvissa sókn á íslenskum fjármálamarkaði.“

„Þetta er merkilegur áfangi í sögu félagsins. Með sameiningu VÍS og Fossa verður til samstæða sem er í góðri stöðu til vaxtar og byggir á traustum grunni. Framundan eru spennandi tímar með sókn á markaði í lykilhlutverki. Þetta er sameining til sóknar,“ segir Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS.