KEA hefur keypt rúmlega 21% hlutafjár í Norlandair og verður eftir viðskiptin stærsti hluthafi félagsins með 43% eignarhlut. Samhliða þessum viðskiptum er Air Greenland einnig að auka við hlut sinn í félaginu og verður næst stærsti hluthafi þess.

Í þessum viðskiptum voru Friðrik Adolfsson, Kaldbakur og Mýflug að selja eignarhluti sína en Friðrik lét af störfum sem framkvæmdastjóri Norlandair vegna aldurs um nýliðin áramót og við starfi hans hefur tekið Arnar Friðriksson.

„KEA hefur verið hluthafi í Norlandair allt frá stofnun þess árið 2008. Það eru mörg spennandi verkefni sem félagið stendur frammi fyrir og við viljum gera gott fyrirtæki betra í samstarfi við aðra hluthafa og starfsmenn þess. Fjárhagur félagsins er traustur og afkoma hefur lengi verið með ágætum. Kaup þessi eru í samræmi við áherslur okkar um að fækka verkefnum en um leið að stækka þau verkefni sem við komum að, segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA.

Friðrik lét af störfum sem framkvæmdastjóri Norlandair vegna aldurs um nýliðin áramót.
© Auðunn Níelsson (Auðunn Níelsson)

Norlandair er með höfuðstöðvar sínar á Akureyri og sinnir sérhæfðu leiguflugi á Grænlandi auk þess að fljúga innanlands í áætlunarflugi á minni flugvelli.

Um síðustu áramót tók Norlandair við sjúkraflugi innanlands til næstu 3ja ára og hefur flugfloti félagsins verið stækkaður þess vegna. Nú er félagið með 3 Twin-Otter og 3 King Air flugvélar í rekstri og áætluð velta þessa árs eru tæpir 3 milljarðar króna.