KEA hefur selt fjárfestingafélaginu SKEL allt hlutafé sitt í Eignarhaldsfélaginu Bjarma ehf. en það félag hefur haldið utan um 5% eignarhlut í matvörukeðjunni Samkaup hf.
„KEA hefur átt þennan eignarhlut í að verða 10 ár. KEA fékk tilboð í hlut sinn frá SKEL fjárfestingafélagi sem það taldi sig ekki getað hafnað. KEA er að einfalda eignasafn sitt í samræmi við þá stefnu að fækka en um leið að stækka þau verkefni sem félagið er með á efnahagsreikningi sínum,“ segir í tilkynningu á vef KEA.
Lífeyrissjóðirnir Festa og Birta keyptu í mars 2021 14,4% hlut í Samkaupum fyrir ríflega 1,3 milljarða króna. Greindi Viðskiptablaðið þá frá því að það væri vilji lífeyrissjóðanna að skrá Samkaup á First North markaðinn.
Birta fer í dag með 18,1% hlut í Samkaupum á meðan Festi lífeyrissjóður fer með 10% hlut.
Í mars í fyrra sagði Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, að félagið væri að horfa til skráningar á þessu ári.
„Staðan er í raun óbreytt frá því hluthafasamkomulagi sem tilkynnt var um á sínum tíma. Mitt ár 2024 er tímaramminn sem verið er að horfa til, og ekki hafa verið teknar ákvarðanir um neitt annað. En auðvitað fer það eftir því hvernig staðan verður á rekstrinum og mörkuðum almennt,“ sagði Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa í samtali við Viðskiptablaðið í fyrra.
Samkaup rekur um sextíu smávöruverslanir um land allt þar á meðal verslanir Nettó, Krambúðina, Kjörbúðina og Iceland.
Eftir kaupin er SKEL fimmti stærsti hluthafi Samkaupa en Kaupfélag Suðurnesja er stærsti hluthafinn með 51,3% hlut.