KEA hefur selt fjár­festinga­fé­laginu SKEL allt hluta­fé sitt í Eignar­halds­fé­laginu Bjarma ehf. en það fé­lag hefur haldið utan um 5% eignar­hlut í mat­vöru­keðjunni Sam­kaup hf.

„KEA hefur átt þennan eignar­hlut í að verða 10 ár. KEA fékk til­boð í hlut sinn frá SKEL fjár­festinga­fé­lagi sem það taldi sig ekki getað hafnað. KEA er að ein­falda eigna­safn sitt í sam­ræmi við þá stefnu að fækka en um leið að stækka þau verk­efni sem fé­lagið er með á efna­hags­reikningi sínum,“ segir í til­kynningu á vef KEA.

Líf­eyris­sjóðirnir Festa og Birta keyptu í mars 2021 14,4% hlut í Sam­kaupum fyrir ríf­lega 1,3 milljarða króna. Greindi Við­skipta­blaðið þá frá því að það væri vilji líf­eyris­sjóðanna að skrá Sam­kaup á First North markaðinn.

Birta fer í dag með 18,1% hlut í Sam­kaupum á meðan Festi líf­eyris­sjóður fer með 10% hlut.

Í mars í fyrra sagði Gunnar Egill Sigurðs­son, for­stjóri Sam­kaupa, að fé­lagið væri að horfa til skráningar á þessu ári.

„Staðan er í raun ó­breytt frá því hlut­hafa­sam­komu­lagi sem til­kynnt var um á sínum tíma. Mitt ár 2024 er tíma­ramminn sem verið er að horfa til, og ekki hafa verið teknar á­kvarðanir um neitt annað. En auð­vitað fer það eftir því hvernig staðan verður á rekstrinum og mörkuðum al­mennt,“ sagði Gunnar Egill Sigurðs­son for­stjóri Sam­kaupa í sam­tali við Við­skipta­blaðið í fyrra.

Sam­kaup rekur um sex­tíu smá­vöru­verslanir um land allt þar á meðal verslanir Nettó, Kram­búðina, Kjör­búðina og Iceland.

Eftir kaupin er SKEL fimmti stærsti hlut­hafi Sam­kaupa en Kaup­fé­lag Suður­nesja er stærsti hlut­hafinn með 51,3% hlut.