Samvinnufélagið Kea hagnaðist um 721 milljón króna á síðasta ári samanborið við 326 milljónir árið 2020. Fjárfestingartekjur jukust um 79% á milli ára og námu 942 milljónum. Eignir félagsins námu 9.249 milljónum í árslok 2020 og eigið fé var 8.918 milljónir. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu félagsins.
„Áhrif heimsfaraldursins voru áfram töluverð á verkefni og starf félagsins á árinu. Mikil óvissa einkenndi framvinduna en segja má að KEA og verkefni þess hafi sloppið ótrúlega vel frá þessu ástandi, sérstaklega í ljósi þess hve stór hluti eigna félagsins hefur beint og óbeint tengst fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Nokkuð rættist úr hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu á seinni hluta ársins,“ segir í ávarpi Eiríks Hauks Haukssonar stjórnarformanns og Halldórs Jóhannssonar framkvæmdastjóra.
Í byrjun árs 2022 var kláruð sala á 67,6% eignarhlut Kea í félaginu Norðurböðum, sem hét áður Tækifæri, en Kea fer áfram með 5% hlut í félaginu. Helstu eignir Norðurbaða eru 43,8% hlutur í Jarðböðunum á Mývatni og 35% hlutur í Sjóböðum á Húsavík.
Sjá einnig: Björgólfur og Grímur í stjórn Norðurbaða
„Gott tilboð barst í hlutinn sem erfitt var að hafna,“ segir í ávarpinu. „Söluferlið var óvenju langt sem skýrist ekki síst af þeirri óvissu sem hefur umleikið ferðaþjónustuna.“
Þar sem salan fór ekki í gegn fyrr en í byrjun árs voru Norðurböð enn inni í samstæðunni í ársskýrslu Kea. Hins vegar tók mat eigna félagsins mið af kaupsamningnum. 43,8% eignarhlutur Norðurbaða í Jarðböðunum var metinn á 2,4 milljarða króna í árslok 2021 samanborið við 2,0 milljarða árið áður. Þá var 35% hlutur í Sjóböðunum metinn á 191 milljón.
„Við söluna á stórum hlut í Tækifæri hf. losnar um töluverða fjármuni og því er vægi lausafjár nú mun hærra en áður hefur verið. Ávöxtunarmöguleikar skammtímafjármuna hafa í langan tíma ekki verið jafn takmarkaðir og nú er, sem og að mikið kapp er í verðbólgunni þessi misserin,“ segir í ávarpinu.
Eiríkur Haukur og Halldór segja að verkefnin fram undan muni snúast um að finna „fyrr heldur en síðar“ fáa en stóra fjárfestingarkosti en félagið stefnir að því að vera með fá en öflug rekstrarfélag í meirihlutaeigu.
„Framboð slíkra verkefna er og verður líklega meira nú en oft áður en á móti kemur að baráttan um verkefnin verður hörð því framboð fjármagns og félaga til fjárfestinga í slíkum fyrirtækjum er mikið.“
Sjá einnig: Birkir Bjarna og KEA fjárfesta í Stefnu
Í nóvember síðastliðnum var greint frá því að Kea hafi keypt 15% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu á Akureyri en Birkir Bjarnason landsliðsmaður í fótbolta tók einnig þátt í fjárfestingarlotunni. Eignarhlutur Kea í Stefnu var metinn á 87 milljónir í lok síðasta árs.
Kea er einnig meðal bakhjarla flugfélagsins Niceair sem mun hefja millilandaflug á Akureyri í júní. Flugfélagið mun fyrst um sinn fljúga til Bretlands, Danmerkur og Spánar.