Ívera íbúðafélag, áður Heimsta­den, hefur gengið frá samningum við dóttur­félag KEA um kaup hins síðar­nefnda á um 120 íbúðum Íveru á Akur­eyri. Kaup­verð eignanna nemur rúmum 5 milljörðum króna.

Ívera hefur nýverið gefið út áform um tvöföldun á eigna­safni sínu sem er í dag um 1.600 íbúðir. Sam­kvæmt til­kynningu frá félaginu er sala eignanna á Akur­eyri liður í endur­skipu­lagningu eigna­safnsins og styrkir undir­stöður félagsins fyrir frekari vöxt.

„Það er ánægju­legt að skerpa á rekstri félagsins með þessari endur­skipu­lagningu í okkar rekstri og horfa á eftir eignunum á Akur­eyri í hendur trausts aðila með metnaðar­full langtímaá­form. Eignirnar eru vel stað­settar og hafa verið eftir­sóttar á leigu­markaði. KEA er rót­gróinn fjár­festir í sínu nær­um­hverfi og gildi þeirra fara vel saman við okkar. Ég trúi að leigu­takarnir verði ánægðir með þessi við­skipti,“ segir Egill Lúðvíks­son, for­stjóri Íveru.

Ívera greinir frá því að báðir aðilar höfðu í viðræðunum lagt áherslu á áfram­haldandi húsnæðisöryggi fyrir leigu­taka íbúðanna en stefna KEA er að reka íbúða­safnið til langs tíma og stefnir félagið á frekari vöxt á þessu sviði.

Við­skiptin munu því ekki hafa neikvæð áhrif á núverandi leigu­taka en þau marka þó brott­hvarf Íveru af íbúða­markaði á Akur­eyri og félagið stefnir ekki á frekari um­svif þar í náinni framtíð.

Ein stærsta fjárfesting KEA í langan tíma

Halldór Jóhanns­son, fram­kvæmda­stjóri KEA, segir að um sé að ræða einu stærstu fjár­festingu félagsins í nokkurn tíma. Hún er liður í þeim breyttu áherslum hjá félaginu að auka veru­lega vægi fast­eigna­tengdra verk­efna á efna­hags­reikningi sínum ásamt því að fækka og stækka þau verk­efni sem eru á höndum félagsins.

Ásamt því að reka íbúða­leigufélag stefni KEA á að taka þátt í ýmiss konar þróunar­verk­efnum á fast­eigna- og íbúða­markaði á sínu nær­svæði.

„Þessi kaup eru fyrsta skref KEA inn á íbúða­leigu­markaðinn hér á nær­svæði okkar en í gegnum dóttur­félagið Skála­brún hyggst KEA byggja upp til lengri tíma safn íbúða til al­mennrar út­leigu,“ segir Halldór.

„Það er ekkert stórt sér­hæft og staðbundið félag um leigu íbúða á al­mennum markaði hér á þessu svæði og við erum að breyta þeirri um­gjörð með þessum kaupum. Það hefur skort félag eins og þetta á þessum markaði og þessi fjár­festing muni til lengri tíma styrkja al­mennan íbúða­leigu­markað á svæðinu.“

Stefnt er að af­hendingu eignanna fyrir jól.