Kjaraviðræður Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa gengið treglega en Samninganefnd sveitarfélaga vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara þann 23. september sl. Boðað var til atkvæðagreiðslu um verkföll fyrr í vikunni en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudag í næstu viku.

Kjaraviðræður Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa gengið treglega en Samninganefnd sveitarfélaga vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara þann 23. september sl. Boðað var til atkvæðagreiðslu um verkföll fyrr í vikunni en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudag í næstu viku.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður Samninganefndar sveitarfélaga, segir að áður en ákvörðun var tekin um að vísa deilunni til sáttameðferðar höfðu aðilar aðeins átt þrjá samningafundi.

„Ástæða þess að Samninganefnd sveitarfélaga vísaði deilunni svo fljótt í samningaferlinu er sú að illa gekk að ná í gang markvissu og uppbyggilegu samtali milli aðila þar sem KÍ félögin hafa hvorki lagt fram né kynnt kröfugerð sína. Það er einnig fáheyrt að félög hafi boðað verkföll, eins og nú hefur verið gert, áður en viðsemjandanum hafa verið kynntar kröfur félaganna,“ segir Inga Rún.

Frá því að viðræðunum var vísað til ríkissáttasemjara hafa tveir fundir verið haldnir og er þriðji fundurinn næstkomandi þriðjudag eins og áður segir.

Allir samþykktu verkfall

Talsvert hefur verið rætt við formann Kennarasambandsins í fjölmiðlum í vikunni en ekki hefur komið skýrt fram hverjar kröfurnar eru. Almennt hefur verið talað fyrir jöfnun launa milli markaða og aukna fagmenntun innan skólakerfisins.

Verkföll hafa verið boðuð í átta skólum - einum framhaldsskóla, þremur grunnskólum og fjórum leikskólum – og hefjast þau að óbreyttu í lok mánaðar. Þá stendur yfir atkvæðagreiðsla um verkfall í einum tónlistarskóla og undirbýr annar framhaldsskóli aðgerðir.

Allir félagsmenn í Félagi leikskólakennara, Félagi grunnskólakennara og Skólastjórafélagi Íslands sögðu já við boðun verkfalls, að því er segir í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands og var kjörsókn í nær öllum tilvikum 100%.