Fyrirtækið Kerecis hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í morgun í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu Samtaka iðnaðarins.
Sjá einnig: Kerecis sækir þrjá milljarða
Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 142% á milli áranna 2018 og 2019, en þær fóru úr rúmum 500 milljónum króna í yfir 1,2 milljarða króna. Kerecis hlaut jafnframt sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa í fyrsta sinn náð veltu yfir 1 milljarði króna á árinu 2019. Þetta er í annað sinn sem Kerecis hlýtur nafnbótina Vaxtarsproti ársins en árið 2017 hlaut fyrirtækið einnig Vaxtarsprotann.
Kerecis hóf starfsemi árið 2013 en fyrirtækið framleiðir afurðir byggðar á affrumuðu þorskroði, sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru notaðar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum, einkum hjá fólki með sykursýki. Fyrirtækið er einnig með starfsemi í Bandaríkjunum.
Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 14. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Í dómnefnd voru Ari Kristinn Jónsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannís og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja.
Eftirfarandi fyrirtæki hafa hlotið Vaxtarsprotann:
- 2007 Marorka
- 2008 Mentor
- 2009 Mentor
- 2010 Nox Medical
- 2011 Handpoint
- 2012 Valka
- 2013 Meniga
- 2014 DataMarket
- 2015 Kvikna
- 2016 Eimverk
- 2017 Kerecis
- 2018 Kaptio
- 2019 Carbon Recycling International
- 2020 Kerecis