Ég er í alla staði alveg gríðarlega ánægður. Ég held þetta sé rétt skref fyrir fyrirtækið og hluthafa á þessum tímapunkti,“ sagði Andri Sveinsson, stjórnarformaður Kerecis, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins að loknum blaðamannafundi félagsins í dag.

Í morgun var formlega tilkynnt um að danska fyrirtækið Coloplast hefði náð samkomulagi um kaup á Kerecis fyrir tæplega 175 milljarða íslenskra króna.

Ólafur Ragnar Grímsson, sem situr einnig í stjórninni, var tíðrætt á fundinum um að Kerecis væri nú einhyrningur (e. unicorn) en nafnbótin er notuð yfir sprotafyrirtæki sem ná á skömmum tíma að verða metin á yfir einn milljarð dala. Ólafur Ragnar leyfði sér að fullyrða að Kerecis væri fyrsti evrópski einhyrningurinn í sinni grein í líftæknigeiranum.

Andri gekk skrefi lengra og sagði að Kerecis væri orðið fyrsti „unicod“ heims og vísar þar til nýtingu Kerecis á roði af þorski til að framleiða sáraroð á Ísafirði.

Gat vel hugsað sér 10 ár til viðbótar

Omega ehf., fjárfestingarfélag Andra og Birgis Más Ragnarssonar, var fyrir söluna stærsti hluthafi Kerecis með yfir 12% hlut. Omega fjárfesti fyrst í Kerecis árið 2013 og hefur Andri setið í stjórn félagsins síðan þá.

Spurður hvort hann hafi átt von á hinum mikla vexti íslenska lækningavörufyrirtækisins þá segir Andri að trú hans á Kerecis hafi styrkst mikið á undanförnum árum og að hann sé sannfærður um stefnu fyrirtækisins og verðmæti vara þess.

„Þetta eru búin að vera skemmtileg tíu ár og frábært að fá að kynnast starfsfólkinu. Ég hefði alveg séð fyrir mér að vera fjárfestir í þessu fyrirtæki í tíu ár í viðbót,“ segir Andri en bætir við að í ljósi fyrirliggjandi tilboðs frá flottu fyrirtæki þá hafi þetta verið náttúrulegt skref í sögu Kerecis.

„Þetta er eins og að láta unglinginn frá sér, þetta er erfitt en þú veist að það verður að gerast. Ég veit að hann er í öruggum höndum, það er númer 1,2 og 3.“

Hann segir sjaldgæft að koma að fyrirtæki á borð við Kerecis sem er bæði arðbært og hefur hjálpað fólki með sínum lækningavörum. „Það er alveg frábært að taka þátt í því, það er ekki oft sem maður er í þannig verkefnum.“

Fyrirtækinu hafi sem dæmi borist nokkur þakkarbréf í gegnum tíðina þar sem vörum þess er þakkað fyrir að hafa hreinlega bjargað lífi sjúklinga.

Andri segir viðskiptin vera mikla viðurkenningu á störfum stjórnenda og starfsfólks Kerecis.