Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur lokið 60 milljóna dala hlutafjárútboði, eða sem nemur 8,2 milljörðum króna. Þar af skráði Kirkbi, fjárfestingarfélag dönsku Lego-fjölskyldunnar, sig fyrir 40 milljónir dala eða um 5,5 milljarða króna og eignast yfir 6% hlut í Kerecis. Þetta kom fram á aðalfundi Kerecis sem lauk fyrir skemmstu.
Auk Kirkbi þá skráðu núverandi hluthafar og íslenski stofnanafjárfestar sig fyrir 20 milljónir dala, eða um 2,7 milljarða króna. Öll nýútgefin hlutabréf voru seld á 78,19 dali á hlut og var Kerecis metið á 550 milljónir dala í viðskiptunum eða um 75,5 milljarða króna á gengi dagsins.
Niklas Sjöblom frá Kirkbi var kjörinn í stjórn Kerecis í stað Ernest Kenney, eins stofnenda Kerecis, sem ákvað að láta af störfum vegna aldurs. Guðmundur Fetram Sigurjónsson, Andri Sveinsson, Franck Sinabian og Ólafur Ragnar Grímsson voru endurkjörnir í stjórnina.
Sjá einnig: Legókallarnir komnir til Ísafjarðar
Á fundinum kom fram að Kerecis stefni á að fjölga sölumönnum úr 150 í 240 í kjölfar hlutafjáraukningunnar.
Þá er áætlað að tekjur fyrirtækisins, sem framleiðir sáraroð úr þorski á Ísafirði, verði í kringum 70 milljónir dala á yfirstandandi rekstrarári sem lýkur 30. september, samanborið við 29 milljónir dala á síðasta rekstrarári. Kerecis stefnir á að tekjur fjárhagsársins 2023 verði um 130 milljónir dala og árið 2024 verði þær yfir 200 milljónir dala, eða yfir 27 milljörðum króna.