Prís var fyrsta verslunin á Íslandi til að nota eingöngu nýjasta kælikerfi frá Kælitækni ehf. Kerfið, sem kallast Heos, er byggt á íslensku hugviti og eru umhverfisvænustu kælikerfin á markaðnum í dag en kerfið sparar verslanir eins og Prís allt að 25-35% í rafmagnskostnaði.

Auk þess nýta kerfin orkuna sem kælarnir gefa frá sér til að hita upp verslunina og sparast þar með einnig í hitakostnaði.

Elís H. Sigurðsson, tæknistjóri hjá Kælitækni, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kælarnir notist við koltvísýring, sem sé í raun elsti kælimiðill sem til er.

Þegar tæknin þróaðist með árunum fóru hins vegar margir að nota freon þar sem það var ódýrara en mengar þó mun meira. Koltvísýringur og HEOS eru nú hægt og rólega að taka aftur við af gömlu freon-kerfunum.

Til að setja mengunina í samhengi þá hefur eitt kíló af kolsýru álíka mikil umhverfisáhrif og að keyra bíl í um 7 kílómetra. Eitt kíló af freoni hefur hins vegar álíka mikil umhverfisáhrif og að keyra bíl tæplega 10 þúsund kílómetra.

„Ég byrjaði að vinna í kælikerfum árið 2005 og sérhæfði mig þá í náttúrulegum og CO2-kælimiðluðum kerfum. Ég hafði alltaf haft orð fyrir því af hverju búnaðurinn þyrfti að vera svona flókinn en ástæðan fyrir því var einfaldlega að búnaðurinn er gjarnan hannaður fyrir heitu löndin.“

Elís segir að hann hafi viljað búa til kælikerfi sem væri sérstaklega hannað fyrir norðurslóðir og fyrir rúmlega fimm árum síðan fór Kælitækni þá í samstarf við ítalska fyrirtækið Carel um hönnun á slíku kælikerfi.

Kerfin nýta einnig orkuna sem kælarnir gefa frá sér til að hita upp verslunina.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Tilraunakæli var síðan komið fyrir í kjallaranum í Hagkaup í Skeifunni með góðum árangri. „Við áttum okkur fljótlega á því að þetta er einföld vara sem er einföld í uppsetningu og skilar allt að 35% meiri rafmagnssparnaði miðað við önnur CO2-kerfi á markaðnum.“

Elís bætir við að mörg smærri fyrirtæki hafi viljað fara þessa leið líka en hingað til hafi hár kostnaðurinn fælt þau frá.

„Þetta er það sem markaðurinn hefur verið að bíða eftir. Við erum búin að setja þetta kerfi upp í verslunum, veitingahúsum, vöruhúsum og fyrir sjávarútveginn. Þetta er bara kælikerfi sem hakar í 95% af þörfum markaðarins.“