Þorbjörg Helga er gagnrýnin á hvernig geðheilbrigðisþjónustu er háttað hjá hinu opinbera. „Sjúkratryggingar bjóða sálfræðingum allt of lága þóknun, sem gerir þeim ómögulegt að starfa undir þessum samningum,“ segir hún. Hún bendir á að Sjúkratryggingar Íslands borgi aðeins 14.600 krónur á tímann en almennt verð fyrir sálfræðiþjónustu er á bilinu 23–25.000 krónur.
„Þegar fólk er tilbúið að borga tugi þúsunda fyrir lögfræðinga eða endurskoðendur, ætti hið sama að gilda um sálfræðinga, sem sinna mikilvægu hlutverki í samfélaginu.“ Hún segir aðgengi barna að sálfræðiþjónustu hafa batnað að einhverju leyti, en aðgengi fyrir fullorðna sé enn mjög óskýrt. „Það eru allir flokkar sammála um að það þurfi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en það hefur bara ekki gerst, vegna þess að Sjúkratryggingar ætla að borga smáaura fyrir þessi viðtöl. Þetta eru mikið til konur og það er kominn tími á að borga réttar upphæðir fyrir þessa vinnu. Það eru mjög fáir sálfræðingar á samningi við Sjúkratryggingar eins og staðan er í dag. Almennt verður kerfið að vakna ef það á að láta þetta ganga.“