Samkvæmt heimildum danska viðskiptamiðilsins Børsen ákvað danska ríkið að greiða yfirverð fyrir hluti í rekstrarfélagi Kastrup-flugvallar vegna ótta um að ástralska félagið Macquire myndi verða meirihlutaeigandi flugvallarins á ný.
Ástralska fjárfestingafélagið Macquarie er einn umsvifamesti innviðafjárfestir heims en félagið var meðal þeirra erlendu fjárfesta sem sýndu áhuga á því að kaupa í Isavia, annaðhvort minnihluta eða meirihluta.
Það vakti mikla undrun fjárfesta þegar danska ríkið greiddi 32 milljarða danskra króna, sem nemur ríflega 625 milljörðum íslenskra króna, fyrir 59,4% hlut í rekstrarfélagi Kaupmannahafnarflugvallar í fyrra.
Með kaupunum fór eignarhlutur ríkisins í 98,6% en seljendurnir voru kanadíski lífeyrissjóðurinn OTP og danski lífeyrissjóðurinn ATP. Heildarvirði Kastrup eftir viðskiptin voru tæpir 54 milljarðar danskra króna.
Að sögn Børsen eru þessi viðskipti ríkisins ekki bara áhugaverð fyrir þær sakir að ríkið greiddi nær tvöfalt markaðsverð fyrir hlutina heldur einnig vegna þess að ríkið segist ekki vilja eiga hlutina til lengri tíma.
Samkvæmt heimildum Børsen var kanadíski lífeyrissjóðurinn OTTP í viðræðum við Macquire um kaup á hlutum þeirra í flugvellinum en þegar fjármálaráðuneyti Danmerkur fékk upplýsingar um kaupin var ákveðið að ganga inn í þau á ögurstundu.
Macquire fór með ráðandi hlut í flugvellinum skömmu eftir aldamót en á árunum 2005 til 2017 var nær allur hagnaður flugvallarins greiddur út til hluthafa að sögn Børsen.
Á tímabilinu 2006 til 2017 greiddi félagið út 12 milljarða danskra króna í arð en ríkið sem minnihlutaeigandi reyndi ítrekað að draga úr arðgreiðslunum án árangurs.
Hægt er að lesa umfjöllun Børsen hér.