Bílasala er 42% minni fyrstu níu mánuðina samanborið við sama tímabil í fyrra. Seldir hafa verið 7.977 nýir fólksbílar í ár samanborið við 13.640 í fyrra.
Hlutfall rafbíla í nýsölu hefur lækkað mikið eftir að stjórnvöld komu á fót nýju úthlutunarkerfi og lögðu 6 krónu vegskatt á hvern ekinn kílómetra.
Kia er mest seldi bíllinn með 1.191 skráðan bíl, Toyota kemur næst með 1.068 bíla og Hyundai vermir þriðja sætið með 1.036 bíla. Dacia er í fjórða sæti með 748 selda bíla en 90% þeirra eru Duster, einn vinsælasti bílaleigubíllinn á Íslandi.
Mest aukning hjá Hyundai og hrap hjá Tesla
Nokkrir bílaframleiðendur hafa aukið söluna fram í september. Mest er aukningin hjá Hyundai eða um 47%. Skoda hefur aukið söluna um 17% og Nissan um 8%.
Fyrir ári síðan var Tesla næstmest seldi framleiðandinn á Íslandi með 2.182 fyrstu níu mánuðina, rétt á eftir Toyota í fyrsta sætinu. Í ár hefur Tesla aðeins selt 347 bíla og nemur söluminnkunin 84%, sem er mesti samdrátturinn af öllum þeim bílaframleiðendum sem flytja inn bíla til landsins.
Samdrátturinn er mjög mismunandi milli framleiðenda. Næstmestur er hann hjá Volkswagen, eða 75%. Salan hjá Toyota hefur dregist saman um 55%.
Bílar, 40 síðna sérblað Viðskiptablaðsins, kom út í morgun. Þar er fjallað um bílasölu á Íslandi fyrstu níu mánuði ársins. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.