Fyrir átta mánuðum síðan urðu margir bandarískir íhaldsmenn reiðir út í framleiðanda Bud Light, Anheuser-Busch, fyrir samstarf fyrirtækisins við transáhrifavaldann Dylan Mulvaney. Hún hafði þá birt myndband af sér á Instagram-síðu sinni að opna dós af Bud Light.

Viðbrögð íhaldsmanna voru það mikil að fyrirtækið þurfti að greiða framlínustarfsmönnum sínum aukalega vegna áreitis sem það þurfti að þola eftir auglýsinguna. Samkvæmt fréttastofunni CNN hafði Anheuser-Busch borist fjöldi hótana vegna málsins, meðal annars sprengjuhótana.

Fyrir átta mánuðum síðan urðu margir bandarískir íhaldsmenn reiðir út í framleiðanda Bud Light, Anheuser-Busch, fyrir samstarf fyrirtækisins við transáhrifavaldann Dylan Mulvaney. Hún hafði þá birt myndband af sér á Instagram-síðu sinni að opna dós af Bud Light.

Viðbrögð íhaldsmanna voru það mikil að fyrirtækið þurfti að greiða framlínustarfsmönnum sínum aukalega vegna áreitis sem það þurfti að þola eftir auglýsinguna. Samkvæmt fréttastofunni CNN hafði Anheuser-Busch borist fjöldi hótana vegna málsins, meðal annars sprengjuhótana.

Hlutabréf Anheuser-Busch lækkuðu töluvert þar sem margir neituðu einfaldlega að kaupa Bud Light og úr varð ákveðið slagorð í miðju menningarstríði: „get woke, go broke“. Með því átti fólk við að þau fyrirtæki sem tileinka sér samfélagsleg málefni, fjölmenningu eða kynhneigð muni tapa fjárhagslega á því.

Tónlistarmaðurinn Kid Rock birti einnig myndband af sér þar sem hann skaut dósir af Bud Light með riffli til að sýna reiði sína gagnvart fyrirtækinu.

Margt hefur hins vegar breyst á átta mánuðum og undirritaði Anheuser-Busch meðal annars 100 milljóna dala samning í október sem gerði Bud Light að aðalstyrktaraðila UFC bardagaíþróttarinnar.

Kid Rock greindi svo nýlega frá því í viðtali við Fox News að hann hafi í raun aldrei kallað eftir því að fólk sniðgangi bjórinn og vonast til þess að fólk hætti að einblína á málið. „Ég vona að önnur fyrirtæki átti sig líka á þessu, en ég held að refsingin sem þau fengu á þessum tímapunkti samsvari ekki glæpnum.“

Dana White, forstjóri UFC, talaði einnig vel um nýja styrktaraðila sinn í viðtali við Tucker Carlson og sagði að þeir sem telja sig vera sannir Bandaríkjamenn ættu að drekka Bud Light í lítratali.

Íhaldsmenn virðast hafa tekið misvel í þessa afstöðu White og Rock en sumir hafa gagnrýnt þá fyrir að gefa eftir. Megyn Kelly, fyrrum fréttakona Fox News, segist enn móðguð út í Bud Light og segir að repúblikanar ættu ekki að gefast upp á herferð sinni bara af því Kid Rock og Dana White vilja gefast upp.