Verðbólga í Rússlandi heldur áfram að hrjá íbúa í landinu en verð á smjöri hefur til að mynda hækkað um 30% frá því í desember á síðasta ári. Þá hefur kílóverðið á kartöflum einnig hækkað um 73% frá því í byrjun árs.

Seðlabanki Rússlands hækkaði stýrivexti í síðasta mánuði upp í 21% en þeir hafa ekki verið hærri þar í landi í 20 ár. Vextirnir virðast þó hafa haft lítil áhrif á verðbólgu, sem var 8,5% í október.

Skýrt dæmi um þessa þróun átti sér stað í rússnesku borginni Yekaterinburg þann 5. nóvember sl. en þá brutust tveir menn inn í verslunina Dairy Place. Á meðan einn tæmdi kassann fór hinn rakleiðis inn í kæli og tók 20 kg af smjöri. Eigandi verslunarinnar sagði á Telegram að ránið sýndi að smjör væri nú orðið eins og gull.

Verðbólgan í Rússlandi hefur aukist vegna stríðsins í Úkraínu en það hefur leitt til aukins matarkostnaðar vegna skorts á vinnuafli, hærri launakostnaðar, refsiaðgerða og aukins framleiðslukostnaðar.

Þá hafa rússnesk yfirvöld reynt að forðast gagnrýni vegna verðhækkana og haldið áfram að kenna bandamönnum Úkraínu um átökin, refsiaðgerðir og birgðaskort. Vladimír Pútín Rússlandsforseti þvertekur fyrir að þjóðin hafi skipt út „smjöri fyrir byssur“ eins og hann orðar það.

Ríkisstjórn Rússlands hefur þó reynt að fullvissa almenning um að verið sé að bregðast við vöruskorti. Á síðasta ári var til að mynda mikill eggjaskortur sem leiddi til 40% verðhækkunar á vörunni.

Yfirvöld tilkynntu þá að þau myndu aflétta tollum og kaupa egg frá „vingjarnlegum“ löndum. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fluttu Rússar inn 235 milljónir eggja frá Belarús, Aserbaísjan og Tyrklandi.

Í október sagði rússneska ríkisstjórnin að hún myndi halda áfram að fylgjast með smjörverði og að hún myndi styðja við kerfisbundna framleiðsluaukningu, eins og hún orðaði það, þar sem mjólkuriðnaðurinn í landinu heldur áfram að glíma við mikla eftirspurn.