Hagstofa Íslands hefur skoðað upptöku kílómetragjalds frá ýmsum hliðum og er það niðurstaða stofnunarinnar að þar sem gjaldið er háð notkun á vegum, þ.e. greitt er í réttu hlutfalli við fjölda ekinna kílómetra, líti Hagstofan á kílómetragjaldið sem veggjöld og verði það því tekið með í vísitölu neysluverðs.
Afnám olíugjalds og annarra vörugjalda á eldsneyti mun þó hafa áhrif til lækkunar á vísitölunni á móti.
Má því ætla ekki verður af fyrirhuguðri 1% hjöðnun á verðbólgu í janúar líkt og spáð var ef gjaldið yrði ekki tekið inn.
Á þeim forsendum að gjaldið sé í mælingunni spáir Landsbankinn 4,2% verðbólgu og Íslandsbanki 5,0% verðbólgu í janúar.
„Kílómetragjaldið myndi því hafa áhrif á hana til hækkunar. Þessi niðurstaða er ólík meðhöndlun á kílómetragjaldi á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem tekið var upp um síðustu áramót. Þá var um að ræða gjald sem ekki var almennt fyrir alla sem nota vegina og því var litið á það sem skatt á ákveðna tegund bíla en ekki almennt gjald fyrir notkun á vegum,“ segir á vef Hagstofunnar.
Að mati Hagstofunnar er kílómetragjaldið ólíkt útvarpsgjaldinu að því leyti að það er innheimt óháð því hversu mikið eða hvort fólk nýtir sér yfirhöfuð þjónustu RÚV svo það er ekki sambærilegt við kílómetragjaldið.
Hagstofan segir að fá fordæmi sé að finna varðandi áhrif af upptöku kílómetragjalds. Ekki eru þekkt nein slík dæmi í Evrópu en þar er mikil reynsla af margs konar veggjöldum
„Hvað varðar endanleg heildaráhrif á vísitöluna er ekki hægt að svara því hver þau yrðu nema fyrir liggi endanleg útfærsla og vogir fyrir þann tímapunkt sem breytingarnar tækju gildi,“ segir á vef Hagstofunnar.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gjörbreytir útreikningur kílómetragjalds verðbólguspám bankanna en ef Hagstofan hefði ekki reiknað það inn til hækkunar væri verðbólga í kringum 3% í janúar.
Landsbankinn spáir 4,2% verðbólgu og Íslandsbanki 5,0% verðbólgu í janúar sé gjaldið tekið inn í mælinguna.