Tæknifrumkvöðullinn Kim Dotcom verður framseldur frá Nýja-Sjálandi til Bandaríkjanna þar sem hann á von á fjölda ákæra. Dotcom er ásakaður fyrir ótal höfundaréttarlagabrot, skipulagða glæpastarfsemi og peningaþvætti.

Paul Smith, dómsmálaráðherra Nýja-Sjálands, undirritaði framsalsskipun hans í gær en Dotcom hefur eytt árum í að áfrýja máli sínu án árangurs.

Kim Dotcom, sem fæddist í Þýskalandi en er búsettur á Nýja-Sjálandi, stofnaði deilingarsíðuna Megaupload sem naut gríðarlegra vinsælda á árum áður. Á einu tímabili var vefsíðan í 13. sæti af vinsælustu heimasíðum heims og sá fyrir um 4% af allri netumferð á heimsvísu.

Milljónir manna notuðu síðuna til að niðurhala kvikmyndum og tónlist og fullyrða bandarísk yfirvöld að Dotcom og fleiri hafi kostað kvikmyndaver og útgáfufyrirtæki yfir 500 milljónir dollara.

„Hlýðna bandaríska nýlendan í Suður-Kínahafi ákvað að framselja mig fyrir það sem aðrir notendur hlóðu upp á Megaupload,“ skrifaði Dotcom á samfélagsmiðlum í gær.