Stjórnvöld í Kína munu þann 8. janúar næstkomandi afnema skyldu komufarþega að fara í sóttkví, þrátt fyrir að Covid-smitum fari fjölgandi. Ferðamönnum dugar framvegis að framvísa neikvæðu PCR prófi við komuna.
Kínversk stjórnvöld vinda nú ofan af núll-Covid stefnu sinni, sem fól í sér meðal hörðustu sóttvarnaaðgerða heims í faraldrinum. Ríkisstjórnin ákvað að breyta um stefnu eftir að mikil mótmæli brutust út um landið á síðustu mánuðum.
Heilbrigðisyfirvöld í Kína kynntu í gær áform um að færa niður aðgerðaáætlun sína í sóttvarnamálum, m.a. með afnámi á sóttkví fyrir komufarþega. Samkvæmt núgildandi reglum ber þeim að dvelja fimm daga á hóteli og síðan þrjá daga á heimili sínu í sóttkví.
Kínversk stjórnvöld áætla að um 250 milljónir manns í Kína, eða 18% af mannfjöldanum, hafi smitast af Covid-19 á fyrstu tuttugu dögunum í desember, samkvæmt heimildum Financial Times.
Heilbrigðisstofnun Kína sagði að meira en 90% af þeim sem smitast af ómíkron-afbrigði veirunnar væru með mild eða engin einkenni.
Hlutabréf í Kína hækkuðu við tilkynningu stjórnvalda en CSI 300 vísitalan hækkaði um 1,15%. Evrópska vísitalan Europe Stoxx 600 hefur hækkað um 0,4% í dag og verð á framvirkum samningum tengdum S&P 500 hafa sömuleiðis hækkað.