Stjórnvöld í Kína hafa bannað útflutning á málmunum gallíum og germanium, sem notaðir eru í framleiðslu hálfleiðara, til Bandaríkjanna. Ákvörðunin kemur í kjölfar aðgerða bandarískra yfirvalda gegn hálfleiðarafyrirtækjum í Kína.

Tilskipun stjórnvalda tekur strax gildi en hún krefst einnig strangari endurskoðunar á grafítvörum sem sendar eru til Bandaríkjanna.

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær sína þriðju aðgerð gegn útflutningi til 140 kínverskra fyrirtækja sem starfa við framleiðslu hálfleiðara. Á þeim lista má einnig finna flísaframleiðandann Naura Technology Group.

Bannið leggst ofan á gildandi takmarkanir sem kínversk stjórnvöld settu á í byrjun síðasta árs. Málið er það nýjasta í röð viðskiptadeilna milli Kína og Bandaríkjanna í aðdraganda endurkomu Donalds Trumps.